Guja Sandholt

Listrænn stjórnandi

Guja

Guja Sandholt er listrænn stjórnandi Óperudaga í Kópavogi. Hún býr í Amsterdam í Hollandi og starfar þar sem sjálfstætt starfandi söngkona. Á undanförnum árum hefur hún unnið við ýmis verkefni í Hollandi og víðar og má þar til dæmis nefna „Nieuwe Stemmen“ prógrammið á Operadagen Rotterdam fyrir unga og upprennandi söngvara. Í fyrrasumar setti hún upp óperuna The Bear eftir William Walton á Players í Kópavogi ásamt nokkrum öðrum íslenskum listamönnum. Sú sýning vakti talsverða athygli og varð kveikjan að Óperudögum í Kópavogi. Í júní fer Bjarnarteymið með sýninguna til Svíþjóðar og hver veit nema hún verði sýnd einu sinni aftur í Reykjavík á næstunni.

Guja hefur líka tekið þátt í flutningi á óratoríum á borð við Mattheusarpassíuna og Jólaóratoríuna eftir J.S.Bach, Requiem eftir Mozart og Duruflé, Stabat mater eftir Dvorak, Pergolesi og Abos, Messías eftir Handel og Messu í C eftir Beethoven á undanförnum misserum og sungið á hátíðum eins og Grachtenfestival, Holland Festival og Over het IJ Festival í Amsterdam. Hún syngur einnig reglulega með Hollenska útvarpskórnum og kemur oft fram á ljóðatónleikum með Heleen Vegter, píanista. Árið 2013 fór hún sem styrkþegi Wagner-félagsins til Bayreuth í Þýskalandi og á árunum 2011-2012 starfaði hún fyrir eistneska tónskáldið Arvo Pärt og fjölskyldu hans um hríð.

Guja stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, Guildhall School of Music and Drama í London, Mozarteum tónlistarháskólann í Salzburg og Konservatoríið í Utrecht í Hollandi. Aðalkennarar hennar á undanförnum árum voru Jón Þorsteinsson tenór og söngkennari við Konservatoríið í Utrecht og Charlotte Margiono sópransöngkona og fer hún enn reglulega í tíma til þeirra.

Nú til dags hefur Guja mikinn áhuga á að fást við fjölbreytt verkefni með áherslu á tónlist og samfélagsleg gildi. Þess vegna hafa Óperudagar í Kópavogi verið dýrmætt tækifæri til að kanna nýjar óperuslóðir á Íslandi og um leið mynda þéttan kjarna af fólki með svipaðar ástríður og markmið.

www.gujasandholt.com


Kemur fram á