Viðburður Óperudagar 2025
Ítölsk eðalstund - Undir rós himinsins

Barokkhópurinn Ensemble Elegos færir áheyrendum tóna sem hljómuðu fyrst fyrir 400 árum – á upphafsárum óperunnar. Frumkvöðlar óperunnar leituðu nýrra leiða til að tjá mannlegar tilfinningar í tónum og ýmislegt í tónmáli þeirra var byltingarkennt. 400 árum síðar könnumst við enn ósköp vel við sömu tilfinningar og tónlistin er í senn aldagömul og nýstárleg. Á tónleikunum hljóma meðal annars brot úr fyrstu óperu Monteverdis – L´Orfeo – og verk eftir feðginin Giulio og Francescu Caccini, en þau gegndu lykilhlutverki í óperusmíðum í Flórens. Þaðan kemur einmitt tenórinn Enrico Busia, sem syngur hér við undirleik Sólveigar Thoroddsen á barokkhörpu og Sergio Coto á teorbu – bassalútu sem var vinsælasta undirleikshljóðfæri þessa tíma og þótti endurspegla blæbrigði mannsraddarinnar einstaklega vel.