Viðburður Óperudagar 2025
Eldur og andagift - ítölsk eðalstund í Laugarnesskóla

Eldur og andagift - ítalskir hverfistónleikar
Laugarnesskóli breytist í tónleikahöll!
Barokkhópurinn Ensemble Elegos færir áheyrendum tóna sem hljómuðu fyrst fyrir 400 árum – á upphafsárum óperunnar. Frumkvöðlar óperunnar leituðu nýrra leiða til að tjá mannlegar tilfinningar í tónum og ýmislegt í tónmáli þeirra var byltingarkennt. 400 árum síðar könnumst við enn ósköp vel við sömu tilfinningar og tónlistin er í senn aldagömul og nýstárleg. Í efnisskránni Eldur og andagift er sjónum beint að mismunandi birtingarmyndum ástarinnar – tilfinningar sem getur verið upphafin, hugljúf eða fláráð. Sérstök áhersla er lögð á óperurnar þrjár sem hafa varðveist eftir Claudio Monteverdi, en flutt verður brot úr öllum þremur. Auk þess hljóma verk eftir feðginin Giulio og Francescu Caccini, en þau gegndu lykilhlutverki í óperusmíðum í Flórens. Þaðan kemur einmitt tenórinn Enrico Busia, sem syngur hér ásamt Maríu Konráðsdóttur sópran. Undirleikur er í höndum Sólveigar Thoroddsen á barokkhörpu og Sergio Coto á teorbu – bassalútu sem var vinsælasta undirleikshljóðfæri þessa tíma og þótti endurspegla blæbrigði mannsraddarinnar einstaklega vel.
Aðgangur er ókeypis og öllum opinn til að auka aðgengileika að hátíðinni en tekið er á móti frjálsum framlögum vilji fólk styðja við verkefnið.