Graduale Nobili
kór

Graduale Nobili var stofnaður af Jóni Stefánssyni árið 2000 og er skipaður 20 meðlimum á aldrinum 18–30 ára sem öll hafa lagt stund á tónlistarnám. Kórinn hefur hlotið verðlaun í alþjóðlegum kórakeppnum víða um heim og frumflutt fjölda verka eftir bæði íslensk og erlend tónskáld.
Kórinn vakti mikla athygli þegar hann söng á plötu Bjarkar Guðmundsdóttur, Biophilia, og fylgdi henni á tónleikaferðum í tæpa tvo vetur. Árið 2014 voru jólatónleikar kórsins sýndir í sjónvarpi bæði á RÚV og víða um Evrópu, og árið 2017 söng kórinn með hljómsveitinni Fleet Foxes í Eldborg á Iceland Airwaves.
Kórinn hefur einnig gefið út nokkrar plötur, m.a. In paradisum (2008) Ten Years (2010), A Ceremony Of Carols - Dancing Day (2011) og Vökuró (2022).
Í ár fagnar Graduale Nobili 25 ára afmæli og frumflutti við það tilefni nýtt kórverk eftir fyrrverandi meðlim kórsins, Eygló Höskuldsdóttur Viborg.
Stjórnandi kórsins er Sunna Karen Einarsdóttir.