Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir
Mezzósópran

Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir hefur komið fram sem einsöngvari á tónleikum vítt og breitt um Evrópu, í Suður-Ameríku, Bandaríkjunum og Afríku í tónleikasölum svo sem Henry le Boeuf Hall í Bozar í Brussel, Auditorio Nacional de Música, Teatro Monumental og Teatro Real í Madrid, Glinka sal Fílharmóníunnar og Belozelsky-Belozersky höllinni í St. Pétursborg, Coliseo í Buenos Aires, Wigmore Hall og Royal Festival Hall í London. Hún hefur sungið einsöng m. a. með Sinfóníuhljómsveitum Íslands, Madrídar, Barselóna, Katalóníu, Sjónvarps- og Útvarpshljómsveit Spánar, St. Petersburg State Symphony Orchestra og Philharmonia Orchestra í London.
Guðrún hefur sungið í óperum á Spáni, Írlandi, Bretlandi og Íslandi og frumflutt fjölda tónverka eftir íslensk og erlend tónskáld, sem mörg hver hafa verið samin sérstaklega fyrir hana. Þar á meðal er titilhlutverkið í óperunni Lilith, luna negra eftir David del Puerto, sem er handhafi Þjóðarverðlauna Spánar í tónlist. Guðrún kemur reglulega fram með gítarleikaranum Francisco Javier Jáuregui og kammersveitinni Sonor Ensemble, sem saman stendur af hljóðfæraleikurum úr Sinfóníuhljómsveit Spánar.
Guðrún lauk söngnámi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og síðan meistaragráðu og óperudeild Guildhall School of Music and Drama í London. Hún vann til Kathleen Ferrier ljóðasöngsverðlaunanna í Wigmore Hall, Miriam Licette í Covent Garden og Joaquín Rodrigo verðlaunanna í Madríd. Söngur Guðrúnar hefur verið hljóðritaður á vegum RÚV, Sjónvarpsins, BBC, Spænska ríkisútvarpsins, Spænska sjónvarpsins og var hún einn af söngvurunum sem Sjónvarpið fjallaði um í þáttaröðinni Átta raddir. Hún hefur sungið inn á 19 geisladiska, m.a. á vegum 12 tóna, Smekkleysu, Naxos, ABU Records, EMEC Discos og Orpheus Classical.
Guðrún stjórnaði Kammertónleikum á Kirkjubæjarklaustri í 11 ár og var listrænn stjórnandi Syngjandi í Salnum tónleikaraðarinnar. Guðrún stofnaði og stjórnar, ásamt Francisco Javier Jáuregui, Sönghátíð í Hafnarborg sem hefur verið haldin hvert sumar frá árinu 2017. Guðrún hefur kennt söng við Saint Louis University Campus, Tónlistarskóla Kópavogs og Söngskóla Sigurðar Demetz, raddþjálfað kóra og kennt á master class námskeiðum. Hún var ráðin skólastjóri Söngskólans í Reykjavík haustið 2024. www.gudrunolafsdottir.com
Guðrún á Spotify: https://open.spotify.com/playlist/1rKE16VfDi81APxYDByF8S?si=593ebb20e6244ebe
Guðrún á YouTube: https://youtube.com/playlist?list=PLfpBf_18yTnS4KmJkfYgvdBgzVXTWzO4j&si=2MVH3wgp5vsxMB1u