Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir

Sellóleikari

370713156_1758103407976640_9185887966152943200_n

Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir hóf sellónám við Tónlistarskólann á Akureyri ung að árum þaðan sem hún lauk framhaldsprófi undir handleiðslu Ásdísar Arnardóttur. Í framhaldi af því lærði hún hjá Sigurgeiri Agnarssyni og Gunnari Kvaran við Listaháskóla Íslands og Morten Zeuthen við Konunglega Konservatoríið í Kaupmannahöfn. Vorið 2019 lauk Hrafnhildur meistaranámi við Jacobs School of Music, Indiana University undir handleiðslu Brandon Vamos, sellóleikara Pacifica strengjakvartettsins, þar sem hún var handhafi Premier Young Artist Award og Marcie Tichenor skólastyrkjanna. Hún hefur auk þess sótt einkatíma og meistaranámskeið hjá Johannes Moser, Alisu Weilerstein, Richard Aaron, Darrett Adkins, Eric Kim, Amir Eldan o.fl.

Hrafnhildur hefur komið víða fram á tónlistarhátíðum innanlands og utan, leikið með. hljómsveitum beggja vegna Atlantshafsins og leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Hún gegndi um skeið stöðu leiðara sellódeildar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands auk þess að hafa verið fyrsta selló í hljómsveitum á borð við Aurora Symphony Orchestra í Stokkhólmi og Aspen Opera Orchestra í Colorado, Bandaríkjunum. Hún hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir sellóleik sinn, s.s. tónlistarverðlaun Rótarý, viðurkenningu frá Minningarsjóði Jean-Pierre Jacquillat og minningarsjóði Jóns Stefánssonar, Thor Thors Fellowship og Leifur Eiríksson Fellowship. Hrafnhildur hefur einnig unnið til verðlauna sem meðlimur í Kuttner strengjakvartettinum, fyrrum heiðurskvartett Indiana University, og hefur með honum m.a. verið staðarkvartett við Beethoven húsið í Bonn og hljóðritað fyrir útgáfufyrirtækið Naxos. Síðastliðin ár var Hrafnhildur Marta búsett í Kaupmannahöfn þar sem hún spilaði reglulega með Sinfóníuhljómsveit Danska útvarpsins (DR) og Dönsku þjóðaróperunni. Hrafnhildur leikur á Garavaglia selló frá árinu 2011 og boga úr smiðju James Tubbs frá nítjándu öld.

Styrktar- og samstarfsaðilar