Kristín Einarsdóttir Mäntylä
sópran

Kristín Einarsdóttir Mantyla sópransöngkona ólst upp í kórastarfi Langholtskirkju og söng með öllum kórum kirkjunnar. Með Graduale Nobili-kórnum söng hún inn á Biophilia plötu Björk Guðmundsdóttur og fylgdi því tveggja ára tónleikaferðalag um heiminn. Hún útskrifaðist með Burtfararpróf úr Söngskóla Reykjavíkur hjá Hörpu Harðardóttur og hóf í kjölfarið söngnám við Tónlistarháskólann í Leipzig. Kristín lauk Meisterklasse-gráðu með hæstu einkunn árið 2024 og starfaði samhliða sem aðstoðarkennari hjá Prof. Brigitte Wohlfarth frá 2022 til 2024.
Kristín hefur sungið við fjölda óperuhúsa í Þýskalandi, þar á meðal í Leipzig, Gera, Altenburg, Brandenburg og Nordhausen, auk þess að taka þátt í uppsetningum Szene 12 í Dresden og Schlossfestspiele Ettlingen. Árið 2025 söng hún hlutverk Marie í Wozzeck eftir Alban Berg við óperuhúsin í Würzburg og Dessau og aðalhlutverkið í nútímaóperunni Svadba við óperuhúsið í Bonn við góðar undirtektir. Hún söng Elle í uppsetningu Mannsraddarinnar á Seiglu 2025 og syngur um þessar mundir hlutverk Judith í Blaubarts Burg eftir Bartók í Leipzig.
Hún hefur einnig verið einsöngvari í Berliner Konzerthaus, óperunni í Leipzig, Bach Fest Leipzig, Rheinsberg Schlosstheater, Íslensku óperunni og Hörpu tónlistarhúsi.
Kristín hlaut árið 2016 verðlaunin Junge Stimmen Leipzig og styrki frá Richard Wagner- félaginu í Leipzig og Yehudi Menuhin Live Music Now – Leipzig.