Kolbeinn Jón Ketilsson
Söngvari

Kolbeinn Jón Ketilsson stundaði fyrst söngnám við Söngskólann í Reykjavík og síðar við Nýja tónlistarskólann þaðan sem hann lauk burtfararprófi. Eftir það tók við nám í Tónlistarháskólanum í Vín þaðan sem hann útskrifaðist árið 1993. Frá árinu 2000, eftir fastráðningar m.a. í Dortmund og Köln, hefur Kolbeinn komið fram sem einsöngvari víðsvegar í Evrópu, Asíu og N Ameríku. Hann hefur sungið mörg veigamestu tenórhlutverk óperubókmenntanna, m.a. titilhlutverkin í Ævintýrum Hoffmanns, Don Carlo, Parsifal, Tristan, Tannhäuser, Lohengrin og Rienzi sem og Florestan, Tamino, Max, Cavaradossi og Don José. Hjá Íslensku óperunni hefur hann m.a. sungið Alfredo í La Traviata, Rodolfo í La Bohème, Erik í Hollendingnum fljúgandi og Tenórinn í Ariadne á Naxos. Kolbeinn söng hlutverk Enée í Les Troyens á tónlistarhátíðinni í Salzburg árið 2000 við lofsamlegar viðtökur áheyrenda og gagnrýnenda. Á ferlinum hefur hann unnið með mörgum af fremstu hljómsveitarstjórum samtíðarinnar s.s. Zubin Mehta, Lorin Maazel, Antonio Pappano, Kurt Masur og Vladimir Ashkenazy. Af leikstjórum má nefna Paul Curren, John Dew, Herbert Wernicke, Jonathan Miller. Carlos Saura og Keith Warner. Kolbeinn hefur víðfema reynslu á flestum sviðum óperuformsins allt frá barokktímabilinu til nútímans sem og af flutningi ljóða og hljómsveitarverka. Hann söng Radames í Aidu í fyrstu uppsetningu nýja óperuhússins í Kaupmannahöfn árið 2005, og tenórhlutverkið í 9. sinfóníu Beethovens á fyrstu tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu undir stjórn Vladimirs Ashkenazy vorið 2011.