Kristján Jóhannesson
Söngvari

Kristján Jóhannesson fæddist í Reykjavík árið 1992, en á ættir að rekja til Önundarfjarðar. Hann hóf söngnám við Söngskóla Sigurðar Demetz árið 2008. Kennarar hans þar voru Sigrún Hjálmtýsdóttir, Kristján Jóhannsson og Keith Reed. Árið 2014 fluttist hann til Vínarborgar til framhaldsnáms við Konservatoríið þar í borg hjá Uta Schwabe. Á námsárunum söng Kristján m.a. í óperum Mozarts með Sumarakademíu Vínarfílharmóníunnar, í uppfærslum Neue Oper Wien, í I Puritani eftir Vincenzo Bellini í Hofi á Akureyri með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og hlutverk Nautabanans í Carmen e. Georges Bizet hjá Íslensku Óperunni.
Árið 2017 hóf hann störf við Theater an der Wien og Kammeroper í Vínarborg. Af helstu verkefnum hans þar má nefna Niflungahring Wagners og Tristan og Ísoldi, Salome e. Richard Strauss, Don Carlos e. Giuseppe Verdi, Faust e. Gounod og Mærina frá Orleans e. Tchaikovsky. Kristján fluttist svo til St. Gallen í Sviss árið 2021, þar sem hann hefur verið fastráðinn. Af verkefnum hans þar má nefna Requiem Verdis og Ernani, Elektra e. Richard Strauss, Guillaume Tell e. Gioachino Rossini, Leðurblökuna e. Johann Strauss yngri og Töfraflautu Mozarts. Þá hefur hann verið viðriðinn tónlistarhátíðina í Aix-en-Provence síðastliðin ár.
Hann hefur sótt masterklassa hjá listamönnum á borð við Íslandsvinina Elly Ameling og Andreas Schmidt, einnig hjá Robert Holl, Thomas Hampson, Angelika Kirchschlager og Adrian Eröd. Þá hefur hann sótt ljóðasöngsmasterklassa með píanóleikurum á borð við Helmut Deutsch, Julius Drake, Wolfram Rieger og Roger Vignoles.