Silja Elsabet

Söngkona

siljaelsabet

Silja Elsabet er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum. Hún hóf tónlistarferil sinn sjö ára gömul þegar hún gekk í Barnakór Landakirkju og á sama tíma hóf hún nám við Tónlistarskóla Vestmannaeyja. Eftir stúdentspróf flutti hún til Reykjavíkur þar sem hún stundaði klassískt söngnám við Söngskólann í Reykjavík. Þar söng hún einnig með Langholtskirkjukór og Óperukór Reykjavíkur og fékk tækifæri til að syngja einsöng í stórverkum á borð við Mattheusarpassíuna og Jóhannesarpassíuna eftir J.S. Bach.

Leið Silju lá síðar til Lundúna þar sem hún stundaði nám við Royal Academy of Music. Þaðan útskrifaðist hún með Bachelor of Music gráðu og Advanced Diploma í óperusöng. Hún hefur komið fram við fjölbreytt tilefni, meðal annars sem ungur einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, í 2. sinfóníu Mahlers með Magna Symphony Orchestra, í Kúnstpásu Íslensku óperunnar og á óperugala í Gewandhaus í Leipzig, Þýskalandi.

Á óperusviðinu hefur hún túlkað fjölbreytt hlutverk, þar á meðal Þriðju dömu í Töfraflautunni, Hippolytu í Draumi á Jónsmessunótt, Dorabellu í Così fan tutte og Sorceress í Dido and Aeneas. Sérstakt pláss í hjarta Silju eiga lög Oddgeirs Kristjánssonar, sem hún ólst upp við í Vestmannaeyjum. Árið 2021 gáfu hún og Helga Bryndís út geisladisk og vínylplötu undir heitinu Heima sem inniheldur 24 lög eftir Oddgeir í hans eigin útsetningum.

Silja hefur hlotið margvíslega styrki á ferli sínum, meðal annars úr Tónlistarsjóði Vilhjálms Vilhjálmssonar, Minningarsjóði Marinós Péturssonar og Minningarsjóði Oddgeirs Kristjánssonar. Sumarið 2024 var hún jafnframt styrkþegi Richard Wagner-félagsins á Íslandi og dvaldi í Bayreuth þar sem hún upplifði óperur Wagners í hinu merka óperuhúsi þar í borg.