Finnish and Icelandic Choir Concert

PirkanpojatDKRGraduale

Vinamót barna- og ungmennakóra í Langholtskirkju 19. október!

Í tilefni Íslandsheimsóknar finnska drengjakórsins Pirkanpojat leiða 3 barna- og ungmennakórar saman hesta sína á tónleikum í Langholtskirkju þar sem sönggleðin verður í fyrirrúmi. Á efnisskrá er fjölbreytt úrval kórtónlistar með áherslu á verk frá Íslandi og Finnlandi sem kórarnir flytja bæði saman og hver fyrir sig.
Aðgangur er ókeypis og öll velkomin!

Finnski drengjakórinn Pirkanpojat, sem stofnaður var árið 1970 starfar við dómkirkjuna í Tampere og er eitt öflugasta tónlistarfélag drengja í Finnlandi. Pirkanpojat hefur unnið til margra verðlauna og hlotið fjölda viðurkenninga fyrir starf sitt og árangur. Til dæmis var kórinn valinn „æskulýðskór ársins“ af finnska ríkisútvarpinu YLE árið 2007 og árið 2020 hlaut hann Majaoja menningarverðlaunin. Pirkanpojat syngja mjög fjölbreytta tónlist, kirkjutónlist, óperutónlist, nútímatónlist, finnska tónlist, popp og djass og koma reglulega fram með Fílharmoníunni í Tampere og fleiri sveitum. Kórinn hefur tekið upp 13 plötur fyrir útgáfufyrirtæki á borð við Alba og Naxos og farið í fjölmargar tónleikaferðir víða um lönd þar sem hann hefur hvarvetna hlotið frábærar viðtökur.
Nýleg verkefni Pirkanpojat eru m.a. óperan Suor Angelica eftir Puccini, Requiem Mozarts og Jóhannesarpassía Bachs auk fjölda frumflutninga á verkum eftir finnsk tónskáld.
Fjárhagslegir bakhjarlar Pirkanpojat eru Tampereborg og Samband lútherskra safnaða í Tampere. Tónleikaferðin til Íslands er styrkt af finnska tónlistarsjóðnum MES. Stjórnandi kórsins er Jouni Rissanen.

Gradualekór Langholtskirkju er stúlknakór, skipaður 12-18 ára stúlkum. Kórinn vinnur með fjölbreytta kórtónlist, allt frá léttum dægurperlum yfir í ættjarðarlög, sálma og stærri verk. Kórinn er hluti af Kórskóla Langholtskirkju sem var stofnaður haustið 1991 af Jóni Stefánssyni, þáverandi organista kirkjunnar en hann stýrði kórnum allt til hann lést, árið 2016. Markmið skólans er að veita börnum og unglingum staðgóða tónlistarmenntun með markvissri þjálfun raddar og heyrnar sem miðast að þátttöku í kórstarfi. Kórinn hefur komið víða fram og unnið til verðlauna í alþjóðlegum keppnum. Hann hefur farið í margar tónleikaferðir bæði innanlands og utan.
Á meðal nýlegra verkefna má nefna tónleika í Eldborg á Óperudögum 2022, tónleika með tónlist Braga Valdimars, Skilaboðaskjóðuna í tónleikauppfærslu með Sinfóníuhljómsveit Íslands og upptökur fyrir Disney. Nýlega tók kórinn þátt í Eurotreff, evrópsku kóramóti í Þýskalandi. Kórstjóri er Sunna Karen Einarsdóttir

Drengjakór Reykjavíkur er eini starfandi drengjakór landsins. Kórinn, sem í upphafi hét Drengjakór Laugarneskirkju, var stofnaður árið 1990 og er skipaður söngelskum drengjum á aldrinum 7-15 ára. Drengjakór Reykjavíkur syngur tónlist af ýmsum toga, bæði trúarlega og veraldlega, gamla og nýja. Fléttað er inn fræðslu um tónlist og sönggleðin er í fyrirrúmi. Drengjakór Reykjavíkur heldur árlega jóla- og vortónleika auk þess að koma fram við ýmis tilefni. Kórinn syngur í messum, á ráðstefnum, sem gestakór og við fleiri tilefni sem til falla.
Af nýlegum verkefnum kórsins má nefna jóladisk Olga Vocal Ensemble: Winter Light, aukaleik og söng í kvikmyndinni Abbababb, upptökur fyrir kvikmyndatónlist og auglýsingar, Carmina Burana með Sinfóníuhljómsveit Íslands og þáttöku í alþjóðlegu drengjakórahátíðinni The Boys are Singing í Búlgaríu og á Íslandi í samstarfi við Sofia Boys Choir. Kórstjóri er Þorsteinn Freyr Sigurðsson og Laufey Sigrún Haraldsdóttir leikur á píanó með kórnum.

Participants

children's choir