Eva Bjarnadóttir

Leikmynd- og búningahönnuður

457FFB30-18BD-448E-9DB6-FD637BB32F40_1_201_a

Eva Bjarnadóttir nam myndlist við Gerrit Rietveld Academy í Hollandi. Áður stundaði hún nám í kjólasaumi við Tækniskólann í Reykjavík og lauk sveinsprófi 2008. Einnig nam hún textíl hjá Hildi Bjarnadóttur við Myndlistarskóla Reykjavíkur veturinn 2010-2011. Frá útskrift í Hollandi árið 2016 hefur hún búið og starfað á Fagurhólsmýri í Öræfum. Þar tók Eva við húsum sem tilheyrðu verslun og sláturhúsi Öræfinga ásamt sambýlismanni sínum, Peter Ålander. Hún hefur unnið með staðbundinn efnivið undanfarin ár, bæði hluti sem voru í þessum gömlu húsum frá fyrri tíð, en einnig efni í nærumhverfinu eins og jarðveg og lúpínu. Samhliða því hefur hún staðið fyrir fjölbreyttum viðburðum til eflingar menningarlífs á svæðinu og hlaut hún Menningarverðlaun Hornafjarðar árið 2019. Eva hélt einkasýningu í Midpunkti í Kópavogi 2019 en hefur að auki tekið þátt í ýmsum samsýningum á undanförnum árum, m.a. í Skaftfelli á Seyðisfirði, Listasafni Árnesinga í Hveragerði og Vestur í bláinn, sýningu sem sett var upp víða um Reykjavíkurborg haustið 2020.

Sponsors and partners