Hafsteinn Þórólfsson

baritone

Haffi

Hafsteinn Þórólfsson hefur sem atvinnutónlistarmaður í rúm 20 ár sérhæft sig í söng og sköpun tónlistar fyrir raddir. Á það við breitt svið tónlistarstefna. Hann er virkur í tónsköpun og kemur reglulega fram hérlendis ásamt reglulegum tónlistarflutningi erlendis.

Ferill Hafsteins er byggður á fjölhæfni og hefur hann því unnið með fjölbreyttum hópi framúrskarandi listamanna. Nær það allt frá söng með Sinfóníuhljómsveit Íslands til söngs í aðalkeppni Eurovision sem bakrödd. Hann hefur starfað mikið með tónskáldum að frumflutningi verka þeirra, má þar helst nefna eitt frægasta núlifandi tónskáld heims, Arvo Pärt. Hafsteinn söng inn á plötu Bjarkar, Medúlla, (tilnefnd til Grammy verðlauna) og Playstation leikinn God of War frá Sony sem vann til verðlauna út um allan heim fyrir tónlist og flutning þ.á.m. BAFTA. Nær þessi upptalning engan vegin yfir allar þær stefnur tónlistar sem hann hefur sungið eða samið, verið tilnefndur og unnið til verðlauna fyrir.

Hafsteinn hefur verið tilnefndur sem einsöngvari fyrir „Flutning ársins” á Íslensku tónlistarverðlaununum og margoft í verðlaunuðum eða tilnefndum verkefnum. Má þar nefna átta verkefni sem hafa unnið til verðlauna á borð við íslensku og dönsku tónlistarverðlaunin, BAFTA og International Film Music Critics Awards og ellefu verkefni tilnefnd til t.d. Íslensku tónlistarverðlaunanna og GRAMMY.

Verk hans hafa verið flutt á íslenskum og erlendum hátíðum. Má þar nefna LA Philharmonic - The Reykjavik Festival, Nordic Music Days og Silkroad International Arts Festival í Kína. Hann hefur unnið í frumkvöðlastarfi og er stofnfélagi í rótgrónum tónlistarhópum sem hafa unnið og verið tilnefndir til verðlauna. Má þar t.d. nefna Cantoque Ensemble og Kammerkór Suðurlands. Árið 2020 stofnaði hann raddhópinn Vókal sem hefur þegar tekið þátt í verkefni tilnefndu til verðlauna.

Sponsors and partners