Jóhanna Kristín Jónsdóttir

Project Manager

Jóhanna Kristín

Á sínum yngri árum stundaði Jóhanna Kristín Jónsdóttir listdansnám hér heima og erlendis, í Listdansskóla Íslands, síðan í Balletskóla Norsku Óperunnar og loks í The Neubert Ballet Institute Carnegie Hall, NY. Hún tók þátt í ýmsum uppfærslum minni balletthópa, sinnti kennslu barna og hlaut fyrir það heiðursverðlaun frá American Scandinavian Society. 

Jóhanna Kristín er menntaður sálfræðingur og hefur starfað á sviði barnageðverndar í um tólf ár. Hún starfaði á Barna-og unglingageðdeild en síðan á eigin stofu, Barnageð, sálfræðistofa. Hún hefur mikla reynslu á sviði meðferðar og hefur bætt við sig menntun á því sviði. Má þar nefna Hugræna atferlismeðferð, EMDR áfallameðferð og alhliða þjálfun í klínískri dáleiðslu. Nú er Jóhanna Kristín að ljúka meistaranámi í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst og mun rannsóknarritgerð hennar snúa að áhrifum listiðkunar á mótun sjálfsmyndar hjá stúlkum. 

Jóhanna Kristín hefur um árabil tekið þátt í kórastarfi og er meðlimur Vox Feminae undir stjórn Margrétar Pálmadóttur. Hún hefur komið fram með kórnum á ýmsum viðburðum hér heima og erlendis. Hún á tvær dætur sem fylgja í fótspor móður sinnar. Þær syngja í Stúlknakór Reykjavíkur og þrátt fyrir að hafa verið flottar fótboltastelpur, munu þær brátt skipta út fótboltaskóm fyrir ballettskó og hefja nám í Listdansskóla Íslands.

Sponsors and partners