Kafað í hlutverk - Hádegisfyrirlestur Hanna Dóra Sturludóttir

Dynjandi, Skipholti 31 · fös 20. okt kl. 12:45
hanna dóra

Hádegisfyrirlestur 20. október kl.12:45 í Dynjanda, Skipholti
Hanna Dóra Sturludóttir - Kafað í hlutverk

Hvaða hlutverk eru minnistæðust og af hverju? Hvað felst í því að taka að sér hlutverk? Hvaða áhrif hefur hlutverkið á flytjandann? Þessar spurningar og fleiri eru meðal þess sem koma fyrir í hádegisfyrirlestrinum 20.október, þegar Hanna Dóra veltir fyrir sér ýmsu varðandi undirbúningsferli, aðstæðum og áskorunum sem hún hefur upplifað á óperuferlinum.


Aðgangur ókeypis og öll velkomin.
_____________________________

Hanna Dóra Sturludóttir hefur um árabil verið ein af okkar fremstu söngkonum og átt farsælan feril á óperusviði og tónleikapalli víða um heim. Fjöldi þeirra hlutverka sem hún hefur sungið eru nú um 60 talsins. Hanna Dóra hefur komið fram á tónleikum víða um heim, sungið með Sinfóníuhljómsveit Íslands við mörg tækifæri og tekið þátt í fjölmörgum sýningum Íslensku óperunnar. Má þar helst nefna titilhlutverkið í Carmen, Eboli prinsessu í Don Carlo, Donnu Elviru í Don Giovanni, Brothers eftir Daniel Bjarnason og Marcellinu í Brúðkaupi Figarós.

Árið 2014 hlaut Hanna Dóra Íslensku tónlistarverðlaunin og fylgdi þeim nafnbótin „Söngkona ársins“ fyrir túlkun hennar á Eboli prinsessu. Hanna Dóra hefur alltaf lagt sérstaka áherslu á flutning nýrrar tónlistar. Hún var um árabil fastur meðlimur í Novoflot, óperufélag í Berlín sem sérhæfir sig í óhefðbundnum uppsetningum og undanfarin áratug hefur Hanna Dóra unnið náið með Snorra Sigfúsi Birgissyni tónskáldi. Hún vakti verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína í óperunni KOK sem frumflutt var í Borgarleikhúsinu vorið 2021 og fékk tilnefningu til Grímuverðlaunanna og íslensku tónlistarverðlaunanna í kjölfarið. Hanna Dóra er prófessor og fagstjóri söngs við tónlistardeild Listaháskóla Íslands.

Þátttakendur

Styrktar- og samstarfsaðilar