Herdís Anna Jónasdóttir

Sópran

Herdís Anna Jónasdóttir

Herdís Anna Jónasdóttir lærði á fiðlu, píanó og söng frá unga aldri við Tónlistarskólann á Ísafirði. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði lagði hún stund á framhaldsnám við Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Elísabetar Erlingsdóttur. Þaðan útskrifaðist hún með Bachelor gráðu í söng og hélt til Berlínar. Við Hanns-Eisler tónlistarháskólann lærði hún hjá Prof. Brendu Mitchell og Önnu Samuil, en sótti einnig tíma hjá Juliu Varady og Wolfram Rieger. Hún kláraði Konzertexamen árið 2012 með ágætiseinkunn og var þá ráðin að óperustúdíóinu við Óperuna í Zürich. Þar tók hún þátt í ótal sýningum og masterklössum, hjá Michelle Breedt, Brigitte Fassbaender, Francisco Araiza, Fabio Luisi, Ivor Bolton, Andreas Homoki, Dmitri Tcherniakow o.fl.

Herdís hefur tekið þátt í fjölmörgum óperuuppfærslum í Þýskalandi, Íslandi og Sviss. Meðal helstu hlutverka eru Adina (Ástardrykkurinn), Adele (Leðurblakan), Zerlina (Don Giovanni), Drottningin frá Schemacha (Gullni haninn), Maria (West Side Story), Eliza (My Fair Lady), Nannetta (Falstaff), Oscar (Grímudansleikur) og Musetta (La Bohème).

Herdís hefur einnig margsinnis komið fram á tónleikum, s.s. með Kammersveit Reykjavíkur, á Carl-Orff tónlistarhátíðinni, með Saarlensku ríkishljómsveitinni, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveitinni í Canberra, Ástralíu. 

Herdís var valin söngkona ársins í Saarbrücken árið 2016. Þá hefur hún tvívegis verið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna (Söngkona ársins 2012 og Bjartasta vonin 2011), komist í úrslit í Riccardo Zandonai keppninni 2012 og hlotið ýmsa styrki. Árin 2014-2018 var hún fastráðin sem einsöngvari við Ríkisóperuna í Saarbrücken, Þýskalandi.

Styrktar- og samstarfsaðilar