Jóhann Smári Sævarsson

Söngvari

Jóhann Smári Sævarsson

Jóhann Smári Sævarsson hóf söngnám við Tónlistarskólann í Keflavík hjá Árna Sighvatssyni og við Nýja tónlistarskólann hjá Sigurði Demetz. Hann stundaði framhaldsnám við sameiginlega óperudeild Royal College of Music og Royal Academy of Music í London. Að námi loknu réði Jóhann Smári sig sem einsöngvari við Kölnaróperuna og var þar í þrjú ár. Jóhann var einnig fjögur ár á föstum samningi við óperuna í Regensburg. Jóhann hefur sungið sem gestasöngvari við fjölda óperuhúsa í Evrópu: Köln, Bonn, Nürnberg, Saarbrücken, Würzburg, Regensburg, Kaiserslautern, Passau, Berlinar Fílharmoníuna, Prag, Bregenz, Glyndbourn, Royal Albert Hall, Sadlers Wells Theater í London, Dublin Grand Opera, Scottish Opera, Borgarleikhúsið í Reykjavík, Þjóðleikhúsið og Íslensku óperuna. Hann hefur starfað með ýmsum frægum hljómsveitastjórum, meðal annarra Bernard Haitink, Kent Nagano, James Conlon og Gennadi Rozhdestvensky, og þekktum hljómsveitum á borð við London Philharmonic, BBC Concert Orchestra, Gurzenich Orchester, Berliner Sinfonie og WDR útvarpshljómsveitina í Köln. Jóhann hefur sungið óperuhlutverk í 85 óperuuppfærslum á ferlinum. Meðal verka á tónleikum eru Requiem Verdis, Requiem Mozarts, 9. sinfónía Beethovens, 8. sinfónía Mahlers og Sköpunin eftir Haydn. Jóhann hefur haldið ljóðatónleika hérlendis og erlendis. Jóhann Smári var tilnefndur sem rödd ársins 2010 til Íslensku tónlistarverðlaunanna, fyrir söng sinn í Vetrarferðinni og sem Hallgrímur í Hallgrímspassíu Sigurðar Sævarssonar með Schola Cantorum og Caput hópnum undir stjórn Harðar Áskelssonart. Árið 2008 hlaut Jóhann starfslaun listamanna í eitt ár og nú 2023 í 6 mánuði. Jóhann Smári er kórstjóri Karlakórs Keflavíkur , Söngsveitarinnar Víkingar og Hátíðarkórs Norðuróps. Jóhann hefur verið virkur í Íslensku sönglífi frá því hann kom heim 2008, sungið mörg hlutverk í Íslensku óperunni, sungið einsöng með Kammersveit Reykjavíkur, Caput hópnum, óperukórnum í Reykjavík, Háskólakórnum, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Sinfóníuhljómsveit Íslands og á Listahátíð svo eithvað sé nefnt. Sem stjórnandi hefur Jóhann Smári stýrt fluttningi á óperunum „Cunning litle Vixen“ og „Brúðkaupi Figarós“ Þá stjórnaði Jóhann fluttningi á Mozart Requiem 2022 og Verdi Requiem 2023 með Hátíðarkór Norðuróps. Jóhann hefur einnig leikstýrt fjölda óperusýninga, Brúðkaup Fígarós, Toscu, Eugine Onegin, Cunning litle Vixen og Fiðlarinn á þakinu. Jóhann Smári er listrænn stjórnandi óperufélagsins Norðuróp.

Styrktar- og samstarfsaðilar