Sigurður Helgi Oddsson
Pianist

Sigurður Helgi Oddsson nam píanóleik við Tónlistarskóla Vestur-Húnavatnssýslu á Hvammstanga og Tónlistarskólann á Akureyri. Hann lauk burtfararprófi vorið 2004 undir handleiðslu dr. Marek Podhajski. Á árunum 2008 til 2011 stundaði hann framhaldsnám í kvikmyndatónlist, djasspíanóleik og hljómsveitarstjórn við Berklee College of Music í Boston. Meðal kennara hans voru hljómsveitarstjórinn dr. Isaiah Jackson og píanóleikararnir Neil Olmstead og Bob Winter. Hann lauk þaðan BM gráðu summa cum laude. Hann hefur starfað jöfnum höndum sem klassískur og rytmískur píanóleikari ásamt því að stjórna kórum, kenna, útsetja og semja tónlist í frístundum. Hann starfaði um tíma sem píanókennari og meðleikari við Listaskóla Mosfellsbæjar en frá því í febrúar 2018 hefur hann gegnt fullri stöðu sem píanóleikari við Söngskólann í Reykjavík. Í gegnum tíðina hefur hann komið að ýmsum óperu- og söngleikjauppfærslum hjá áhuga- og atvinnuleikfélögum, nú síðast sem hljómsveitarstjóri í Fiðlaranum á þakinu í uppfærslu Söngskólans í Reykjavík í febrúar 2020. Samhliða tónlistinni rekur Sigurður Helgi Sveiflustöðina, dansskóla í hjarta Reykjavíkur sem sérhæfir sig í lindy hop og skyldum sveifludönsum. Hann er sömuleiðis stofnandi og aðalskipuleggjandi alþjóðlegu danshátíðarinnar Lindy on Ice sem hefur verið árviss viðburður á Íslandi síðan 2018. Þá kemur hann einnig reglulega fram með eigin hljómsveit sem leikur blöndu af blús og sveifludjassi ásamt öðrum tegundum djasstónlistar frá fyrri hluta 20. aldar.