OPNUNARHÁTÍÐ 2022

Norræna húsið · sun 23. okt kl. 16:00
opening

Opnunarhátíð Óperudaga fer fram í Norræna húsinu þann 23. október frá klukkan 11:00-18:00 en boðið verður upp á dagskrá fyrir alla fjölskylduna.

11:00 - Bárur - leikskólasýning

12:30 - Bárur - leikskólasýning

14:00 - Langspilssmiðja fyrir alla fjölskylduna með Eyjólfi Eyjólfssyni, söngvara og þjóðfræðingi

16:00 - Opnun Óperudaga í sal Norræna hússins

BÁRUR

Niður sjávar og vatns er aðalþema þessa verks sem er samið fyrir börn á aldrinum eins til fjögurra ára en norræn goðafræði svífur einnig yfir vötnum. Sagan er sögð af tónskáldinu, Svöfu Þórhallsdóttur, sem leiðir börnin í ævintýraheim og notar hún söguna til að skapa aðstæður þar sem börnin fá að taka þátt. Tónlistin skapar draumkennt andrúmsloft og í samspili við börnin myndast rými, þar sem þau ná að fóta sig og upplifa ævintýrið á eigin skinni.

LANGSPILSSMIÐJA

Í langspilssmiðjunni læra þátttakendur undistöðuatriðin í langspilsleik, eins og stramm og plokk með álftafjöðrum. Einnig verður boðið upp á að strjúka strengina með hrosshársbogum. Því næst verða kennd vel valin lög úr þjóðlagasafni sr. Bjarna Þorsteinssonar sem verða að lokum flutt við langspilsleik þátttakenda.  Langspil og önnur kennslugögn verða til staðar fyrir þátttakendur smiðjunnar.

OPNUN

Allir eru velkomnir á opnun Óperudaga þar sem hátíðin framundan verður stuttlega kynnt af aðstandendum verkefnanna og nýr söngkvartett eftir Ásbjörgu Jónsdóttur við ljóð Hörpu Rúnar Kristjánsdóttur verður frumfluttur. Léttar veitingar verða í boði frá Sono matseljum og skemmtileg Óperudagastemning mun svífa yfir vötnum!

Allir velkomnir og ókeypis inn meðan húsrúm leyfir.

Styrktar- og samstarfsaðilar