GADUS MORHUA - þjóðlaga-usla-sveit

Ráðhúsið · fös 20. okt kl. 20:00
gadus

Gadus Morhua hefur þegar haslað sér völl sem þjóðlaga-usla-sveit og þekkt fyrir að „djöflast í forminu." Arnar Eggert Thoroddsen komst svo að orði þegar hann fjallaði um fyrsta geisladisk hópsins, Peysur og parruk, í Morgunblaðinu um árið. Þar gat hann þess einnig að tónlistarflutningur hópsins einkennist af óvæntum bólfélögum; frumsömdu efni í bland við ævafornt, dökkleitu langspili úr innstu kynstrum baðstofunnar og flautuleik úr furðuskógi.
Gadus Morhua hefur hingað til snúið eldri þjóðlögum bæði á réttuna og rönguna og tvinnað þau saman við barokktóna. En hnignunarkennd samtvinnun baðstofuarfs og barokktónlistar, í bland við frumsamdar nýsmíðar orða og tóna innan sama hljómheims, eru aðal sveitarinnar.
Nú ræðst tríóið til atlögu við íslensku fjárlögin, söngvasafn Sigfúsar Einarssonar og Halldórs Jónassonar frá árunum 1915-1916. Söngvasafnið varð svo vinsælt að upp úr því var sungið á hverju heimili áratugum saman. Vinsældir fjárlaganna svokölluðu eru ef til vill að dala með minnkandi söng á heimilum landans. Óneitanlega eru þau mönnum þó enn kær og mörgum kunn. Gadus Morhua setur fjárlögin í brennidepil á stofutónleikum í Ráðhúsinu og Kaffitónleikum í Kastalakaffi.

Styrktar- og samstarfsaðilar