Ragnarök: örlög goðanna

Sjöunda ópera Helga R. Ingvarssonar verður frumflutt 25. október 2025 í Norðurljósum Hörpu á Óperudögum í Reykjavík í samstarfi við Kammeróperuna. Við kynnumst ásunum og sjáum hvernig hroki þeirra, lygar og hégómi leiðir til dauða þeirra í loka bardaganum, ragnarökum. Verkið er á íslensku, forn norrænu og ensku.
Textinn kemur að mestu úr ljóðabálknum „Ragnarökkur“ eftir Benedikt Gröndal (gefið út 1868), en einnig koma fyrir brot úr Völuspá, Sigurdrífumálum, Hamðismálum og fleiri heimildum. Verkið inniheldur ein 16 tónlistar númer og er rúmlega 1 klukkustund í flutningi.
Óðinn (bassi – Unnsteinn Árnason) ferðast niður til Heljar og vekur Völvuna (mezzo - Þórgunnur Anna Örnólfsdóttir) upp frá dauðum með töfrasaung og spyr: „Heyrðu mig Völva,/ þig vil eg enn fregna / unz alkunna, / vil eg enn vita: / Hver mun Ásum að bana verða / og aldri ræna?“ Völvan rís upp og deilir vitneskju sinni um framtíðina, um enda heimsins. Sögusviðið ferðast þá í tíma og stað frá Hel og til Ásgarðs, rétt fyrir Ragnarök, þar sem Heimdallur blæs í Gjallarhornið og Óðinn tilkynnir Ásum að stríð sé á næsta leiti: „Heyrið nú Æsir, hornaþyt / hygg ég að Gjallarhorn kveði.“ Frigg (sópran – Jóna G. Kolbrúnardóttir) sér sýnir og dreymir þau hroðalegu örlög sem bíða heimsins: „Mig vekja tár um mæra morgunstund / er manar fáks í björtum glóa straumi / og þegar loksins þreyða fæ ég blund / þreytist ég meir en fyrr af illum draumi.“ Á sama tíma leiðir Loki (tenór – Eggert Reginn Kjartansson) her Múspells (kór) fram úr sölum Heljar: „Nú ríða Múspells megir fram.“ Frigg og Óðinn hvetja her Einherja (kór) til dáða: „Hetja jarðar, heyrðu mig / herjans krapti særi eg þig.“ Einherjar svara: „Fúsir vinnum allir eið / opin stendur Heljar leið.“ Fylkingarnar tvær standa mót hvorri annarri, tilbúnar að berjast upp á líf og dauða.
Tónlist og handrit er eftir Helga R. Ingvarsson, en hann verður einnig tónlistarstjóri sýningarinnar. Verkið er skrifað fyrir fjóra einsöngvara, tvö píanó og kór.