Þórhallur Auður Helgason

Tenór

Þórhallur.jpg

Þórhallur Auður Helgason hóf ungur tónlistarnám og lærði á píanó undir handleiðslu Kristins Arnar Kristinssonar frá 1995–2004 og í kjölfarið hjá Þóru Fríðu Sæmundsdóttir frá 2005–2010. Hann sneri sér þá að klassískum söng og lærði hjá Þórunni Guðmundsdóttir í Tónlistarskóla Reykjavíkur frá 2011–2017. Þá hóf hann klassískt söngnám við tónlistarháskólann Musik und Kunst í Vínarborg. Samhliða söngnáminu tók hann aftur upp píanónám hið ytra og lærði þar hjá Andreu Rittersberger. Þórhallur hefur sungið hlutverk í þremur uppsetningum á verkum Þórunnar Guðmundsdóttur og söng einnig hlutverk útvarpsmanns í frumflutningi Fótboltaóperu Helga Rafns Ingvarssonar á Óperudögum í Kópavogi sumarið 2016. Við Musik und Kunst söng hann titilhlutverk óperunnar Der bekehrte Trunkenbold og bæði hlutverk Sultan Suliman og Monsieur Vogelsang í uppfærslu sem byggði á Zaide og Der Schauspieldirektor eftir Mozart. Þá var hann tenórmeðlimur Vokalensemble skólans og söng þar verk úr fjölmörgum óperum og helgiverkum. Þórhallur hefur tekið ríkan þátt í kórstarfi hérlendis og syngur um þessar mundir annan tenór með Schola Cantorum og fyrsta tenór í karlakórnum Garúnu. Hann fer með hlutverk Nemorino í Ástardrykknum eftir Donizetti sem sýndur verður í Þjóðleikhúsinu haustið 2021.

Styrktar- og samstarfsaðilar