Barokkbandið Brák

P1070291.jpg

Barokkbandið Brák hefur stimplað sig inn í íslenskt tónlistarlíf síðustu misseri með líflegum upprunaflutningi sínum og fjölbreyttu verkefnavali. Brákin hefur verið starfrækt frá árinu 2014, en bandið var stofnað af fiðluleikurunum Elfu Rún Kristinsdóttur, Laufeyju Jensdóttur og Guðbjörgu Hlín Guðmundsdóttur.

Barokkbandið Brák er skipað hópi ungs fólks sem hefur sérhæft sig að hluta til í upprunaspilamennsku í námi erlendis og vill nýta þessa þekkingu sína til tónleikahalds og verkefna á Íslandi. Elfa Rún Kristinsdóttir er listrænn stjórnandi og leiðari bandsins en hún er margverðlaunaður fiðluleikari og hefur komið fram á tónleikasviðum um heim allan ýmist sem einleikari, konsertmeistari eða kammermúsíkspilari.

Barokkbandið hélt sína fyrstu tónleika á Sumartónleikum í Skálholti í júlí 2015 en síðan þá hefur sveitin flutt fjölbreytta tónleikadagskrá. Brákin hefur fengið til liðs við sig jafnt íslenska og erlenda hljóðfæraleikara sem allir spila á upprunaleg hljóðfæri frá barokk- og endurreisnartímanum en hefur auk þess unnið með söngvurum og dönsurum. Barokkbandið Brák hefur fengið afar góðar viðtökur á tónleikum sínum hvarvetna og gagnrýnandi morgunblaðsins lýsti upplifun sinni nýlega á þessa leið: „Hvert einasta atriði á tónleikunum var magnað.... Það mætti vera oftar eitthvað í þessum dúr á barokktónleikum á Íslandi.“

Brák leitast eftir að færa áheyrendum sem fjölbreyttasta mynd af endurreisnar- og barokktónlist en sú tónlist spannar langt tímabil í tónlistarsögunni. Á síðustu árum hefur orðið mikil vitundarvakning varðandi svonefndan upprunaflutningi og keppast nú hljóðfæraleikarar um allan heim við að tileinka sér upplýstan flutning á verkum barokktímans til þess að komast nær tíðaranda þessa tímabils. Brákin lætur ekki sitt eftir liggja í þeim efnum og miðar að því að flytja íslenskum áheyrendum þessa tegund tónlistar á sem mest lifandi og innblásinn hátt.