Cantoque Ensemble

Sönghópur

cantoque ferkantað2

Cantoque Ensemble er 8-12 radda sönghópur sem inniheldur marga af bestu söngvurum landsins, bæði á sviði snemmtónlistar, nútímatónlistar og óperu. Meðlimir hópsins hafa margir hverjir sungið hlutverk á sviði Íslensku óperunnar og víðar, sungið með hljómsveitum víða um heim og hlotið ótvíræðar viðurkenningar fyrir söng sinn.

Cantoque Ensemble var stofnað 2017 með því viðmiði að starfa með barokk-hljómsveitunum Höör Barock og Camerata Öresund þar sem þau voru með tónleika á Íslandi, Danmörku og í Svíþjóð. Tónleikarnir hlutu tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem tónlistarviðburður ársins 2017. Árið eftir hélt Cantoque Ensemble ferna tónleika með útsetningum á íslenskum þjóðlögum og einnig söng hann kantötur eftir J. S. Bach á Sumartónleikum í Skálholti, með Bachsveitinni í Skálholti undir stjórn hins rómaða barokkstjórnanda Andreas Spering.

Árið 2019 hófst samstarf Cantoque Ensemble við Steinar Loga Helgason. Fyrsta verkefnið með honum var að flytja Jóhannesarpassíu J. S. Bach ásamt barokkbandinu Brák. Árið eftir hélt hópurinn tvenna tónleika með nýrri íslenskri söngtónlist á Sumartónleikum í Skálholti og einnig á Sönghátíð í Hafnarborg undir stjórn Steinars Loga.

Árið 2021 hélt Cantoque Ensemble svo samstarfi sínu við Camerata Öresund áfram, en einnig starfaði með þeim barokkhópurinn Ensemble Nylandia frá Svíþjóð. Verkefnið fór fram á Íslandi og í Danmörku, en einnig var tónleikum hópsins sjónvarpað á barokkhátíðinni BarokkiKuopio í Finnlandi. Þeir tónleikar hlutu einnig tilnefningu sem tónlistarviðburður ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum. Cantoque hélt tónleika á Myrkum músíkdögum í mars 2021 þar sem kórtónlist Jóns Nordal var í öndvegi. Tónleikarnir voru undir stjórn Steinars Loga Helgasonar og hlutu gríðargóðar viðtökur gagnrýnanda og tónleikagesta.

Árið 2023 hélt Cantoque í tónleikaferð til Sviss þar sem hópurinn sameinaðist kórnum Ensemble Chæur3 og flutti verk eftir Frank Martin og Philippe Körper undir stjórn Abeliu Nordmann og mun það samstarf halda áfram á næstu misserum. Einnig hélt hópurinn vinnustofu um íslenska kórtónlist og þjóðlagaarfinn.

Árið 2024 hélt hópurinn tónleika með verkum Þorkels Sigurbjörnssonar á Myrkum músíkdögum undir stjórn Steinars Loga Helgasonar og hlaut fyrir það 5 stjörnu dóm hjá gagnrýnanda Morgunblaðsins. Framundan er tónleikaferðalag til Danmerkur þar sem haldnir verða tvennir tónleikar með íslenskri kórtónlist auk þess að taka þátt í Requiem eftir Jakob Buchanan með Jasshljómsveitinni í Árósum ásamt fleirum.

Styrktar- og samstarfsaðilar