Eygló Höskuldsdóttir Viborg

tónskáld

Eygló-11

Eygló Höskuldsdóttir Viborg (1989 - ) er klassískt tónskáld frá Reykjavík en hefur verið að riðja sér til rúms innan sviðslista undanfarin ár. Leið hennar inn á sviðslistasenuna var í gegnum tónlist fyrir leikverk og þróaðist þannig að nú stígur sjálf á svið, skrifar handrit og skapar verk sjálfstætt og í samstarfi við aðra. Efniviðinn nálgast hún fyrst og fremst frá sjónarhóli tónlistar en verk hennar eiga snertiflöt við sviðslistir og myndlist. Tónlist Eyglóar hefur oftar en ekki einhverja skýrskotun til sviðslista og verk hennar kalla á leikræna tilburði af hendi hljóðfæraleikaranna. Einnig hefur hún skrifað tónverk fyrir fundin hljóðfæri þar sem flutningur verkanna verður óhjákvæmilega að gjörningi. Þar má helst nefna tússpennakvartett (Penphonie in #E) og tónverkið Silent! þar sem tveir einstaklingar lesa upphátt upp úr bók og sussa hvor á annan. Túlkun síðara verksins ræðst því einungis út frá því hvað sé verið að lesa. Samruni tónlistar, sviðlista og myndlistar gerir Eygló kleift að fjalla um flóknari togstreitu mannlegs lífs, sem tónlistin ein og sér nær ekki utan um. Meðal verkefna sem Eygló hefur gert er tónlist fyrir barnaævintýrið Hvíta tígrisdýrið, handrit og tónlist fyrir útvarpsleikritið Fjöldasamkoman á Gjögri og sinfóníuverkið Lo and Behold fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands. Eygló er meðlimur Tóma rýmisins og sviðslistahópsins Slembilukku. Haustið 2023 hóf hún meistaranám í sviðslistum við Listaháskóla Íslands.

Styrktar- og samstarfsaðilar