Gísli Jóhann Grétarsson
Tónskáld
Gísli Jóhann Grétarsson (1983), tónskáld og stjórnandi, er fæddur og uppalinn Akureyringur en býr og starfar nú á höfuðborgarsvæðinu eftir 11 ára dvöl í Skandinavíu. Hann vinnur á sviði nútímatónlistar og hefur lagt áherslu á óperusmíðar og þróun þessa sígilda og stærsta forms tónlistarsögunnar. Með náttúruna sem innblástur og ævintýrlegan frásagnarstíl málar hann myndir með tónlist. Undanfarin 10 ár hefur Gísli unnið með mörgum kórum sem stjórnandi og listrænn leiðbeinandi, bæði í Noregi og á Íslandi, þar sem hann hefur sérhæft sig í flutningi á nýrri tónlist.
Gísli byrjaði á 6. aldursári að læra á klassískan gítar við Tónlistarskólann á Akureyri. Það leiddi síðar til framhaldsnáms í tónsmíðum við Tónlistarháskólann í Piteå í Svíþjóð. Þaðan lauk hann mastersnámi í tónsmíðum, árið 2012. Aðal kennarar Gísla voru prófessorarnir Jan Sandström (tónsmíðar), Hans-Ola Ericson (orgeltónsmíðar), Erik Westberg (kórstjórnun) og Petter Sundkvist (hljómsveitarstjórnun). Eftir 6 ára dvöl í Noregi sem sjálfstætt starfandi tónskáld og stjórnandi snéri Gísli til baka heim til Íslands árið 2018.
Verk eftir Gísla hafa verið flutt á öllum Norðurlöndunum, víða í Evrópu, Ástralíu og Bandaríkjunum. Árið 2016 var kammeróperan Team Player frumflutt í Osló fyrir fullu húsi hvert kvöld og hlaut frábæra dóma gagnrýnenda. Í byrjun september 2017 var hljóðuppsetningin VOICELAND frumflutt á A! gjörningahátíðinni á Akureyri og 2018 á Óperudögum í Reykjavík. Á Óperudögum 2018 var einnig barnaóperan Plastóperan frumflutt, en verkið var pantað af hátíðinni og flutt bæði í skólum í borginni og í Safnahúsinu. Árið 2019 var óperudans verkið „Du må ikke sove“ frumflutt í Nynorskteater í Osló. Árið 2022 samdi Gísli nýtt orgelverk fyrir vígslu nýs orgels í Grafarvogskirkju. Í ár, 2023 verður ný ópera eftir Gísla, SYSTEMET, frumflutt bæði í Þrándheimi og Hörpu, í samstarfi við Operakollektivet og Óperudaga í Reykjavík.
Árið 2022 og 2023 hefur Gísli verið í samstarfi við Kammeróperuna, þar sem hann hefur séð um útsetningu og hljómsveitarstjórnun á uppsetningu hópsins á Cosi fan tute. Það samstarf hefur haldið áfram í næsta verkefni sem er Hans og Greta sem verður sett upp í Tjarnabíói nú í desember 2023.
Næstu stóru verkefni Gísla er ný ópera fyrir Operakollektivet í Noregi (nafn ekki staðfest), nýr orgelkonsert fyrir fyrir Eyþór Inga Jónsson og nýtt orgelverk fyrir James Hicks sem mun vera fyrsta verk á nýjum disk sem James tekur upp í Bodø i Noregi í júní 2024
Gísli er deildarstjóri tónfræðideildar í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, ásamt því að vinna sem sjálfstætt starfandi tónskáld.