Halldóra Ósk Helgadóttir

Sópran

72947998_516528258908642_1235501141454749696_n (1).jpg

Halldóra Ósk Helgadóttir sópran fæddist í Reykjavík þann 13. apríl 1997. Fimmtán ára gömul gekk hún til liðs við Gradualekór Langholtskirkju, og síðar meir Graduale Nobili og Kór Langholtskirkju. Haustið 2014 hóf Halldóra nám við söngdeild Gradualekórs Langholtskirkju undir leiðsögn Hörpu Harðardóttur og Jóns Stefánssonar en færði sig formlega yfir í Söngskólann í Reykjavík haustið 2015 þar sem Hrönn Þráinsdóttir hefur verið meðleikari hennar alla tíð síðan. Halldóra lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð jólin 2016 en samhliða skólagöngu sinni söng hún í Hamrahlíðarkórunum og tók síðast þátt í Bjarkarævintýrinu þar sem Hamrahlíðarkórinn fluttist til New York í mánuð til þess að syngja átta tónleika með Björk Guðmundsdóttur í tónleikaröðinni Cornucopia sem voru haldnir í nýja tónlistar- og menningarhúsinu The Shed. Síðustu þrjú ár hefur Halldóra tekið virkan þátt í Nemendaóperu Söngskólans, veturinn 2016-2017 fór hún með hlutverk annars drengs í Töfraflautunni eftir Mozart, veturinn 2017-2018 fór hún með hlutverk Rósalindu úr Leðurblökunni eftir Johann Strauss II en síðastliðinn vetur fór hún með hlutverk Lísu í óperunni Þinn Falstaff sem nemendur sköpuðu saman. Jólin 2018 fór Halldóra á mánaðarlangt tónleikaferðalag um Grænland með tenórnum Josef Lund Josefsen. Í heildina héldu þau tuttugu tónleika. Í kjölfar tónleikaferðalagsins söng Halldóra inn á grænlenska jólaplötu í júní 2019 og mun hún nú leggja aftur land undir fót næstkomandi nóvember og vera á tónleikaferðalagi fram að jólum í Danmörku og Grænlandi.