Helgi Rafn Ingvarsson
Tónskáld og tónlistarstjóri

Helgi Rafn Ingvarsson er sjálfstætt starfandi tónskáld með aðsetur á Íslandi og Englandi. Tónverk hans eru reglulega flutt á Norðurlöndunum og Bretlandseyjum og meðal verkanna eru m.a. fjöldinn allur af kórverkum, sönglögum, hljóðfæraverkum fyrir kammerhópa, sjö óperur og ýmis önnur tilraunakennd verk. T.a.m. hafa óperur hans verið fluttar yfir þrjátíu sinnum á Íslandi, Svíþjóð og Englandi. Óperurnar „Music and the Brain“ og „Þögnin“ hafa báðar hlotið tilnefningu til Grímunnar og Opera Magazine (UK) sagði að tónlist Helga væri „aðlaðandi frá fyrstu mínútu“ (2022). „Ég hvet tónlistarunnendur til að missa ekki af þessu“ skrifaði Jón Viðar Jónsson gagnrýnandi um Þögnina og Silja Aðalsteinsdóttir (Mál og Menning) skrifaði: „Tónlistin er mjög fjölbreytt og hæfir efninu vel, er tilfinningarík og seiðandi, og spannar allan tilfinningaskalann.” (2022) Arndís Björk Ásgeirsdóttir hjá Heimildinni skrifaði um sönglag Helga „Vetrarþoka“ árið 2023: „Vetrarþoka Helga R. Ingvarssonar var eins og impressíónískt vatnslitamálverk.“ 5against4.com sagði að verk hans „Vefur“, flutt af Kammersveit Reykjavíkur á Myrkum Músíkdögum 2020 hafi verið „sláandi áhrifaríkt.“
Af verkum hans á streymisveitum má m.a. minnast á „I only write alto flute parts when I miss you“ og „Rhythmic Robins / Taktfastir Svartþrestir“ fyrir flautu og píanó (2023), kórverkin „Nú er á himni og jörð“ og „Heim himnaveginn“ flutt af Kordíu, kór Háteigskirkju og gefið út á plötu þeirra „Himindaggir“ 2023, kvintettinn „ELEKTRA“ á hljómplötu Elektra Ensemble (2019), og sönglagið „Vetrarþoka“ á plötu Rannveigar Káradóttur sópran „Krot“ frá 2016. Hljómplatan „Castle in air/Loftkastali“ með tónlist fyrir strengi eftir Helga kom út 2015. Jónas Sen tónlistargagnrýnandi lýsti henni sem „ævintýraheim þar sem hver einasta tónahending hafði merkingu.“
Helgi var staðartónskáld Nordic Song Festival 2022 sem fer fram árlega í Svíþjóð. Vorið 2024 var Helgi valinn sem eitt tónskálda Music Patron UK í Bretlandi. Helgi er með doktorsgráðu í tónsmíðum frá Guildhall School of Music and Drama í London (2018) þar sem hann var studdur af Guildhall School Trust og hlaut m.a. heiðurstitilinn „Composition fellow“. Hann lagði einnig stund á tónsmíðar við Listaháskóla Íslands og Tónlistarháskólann í Malmö (Musikhögskolan i Malmö) sem er partur af Háskólanum í Lundi (Lunds Universitet).