Hlín Pétursdóttir Behrens

Söngkona

hlinmynd.jpg

Hlín Pétursdóttir Behrens lauk einsöngvaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1992 undir leiðsögn Sieglinde Kahmann og stundaði framhaldsnám við óperudeild tónlistarháskólans í Hamborg hjá Prófessor Evu Acker. Veturinn 1994-95 var hún gestasöngvari við óperuhúsin í Stuttgart og Bern. Árin 1995-97 var Hlín fastráðin við Pfalztheater Kaiserslautern og söng þar m.a. Despinu í Cosi fan Tutte, Sophie í Der Rosenkavalier, Frasquitu í Carmen og Adele í Leðurblökunni. 1997-2004 starfaði Hlín við Staatstheater am Gärtnerplatz í München. Meðal hlutverka hennar voru Ólympia í Ævintýrum Hoffnanns, Blonde í Brottmáminu, Zerlina í Don Giovanni, 1. dama og Papagena í Töfraflautunni, Gretchen í Der Wildschütz, Ítalska söngkonan í Capriccio og Clorinda í Öskubusku. Á þessum árum kom hún fram sem gestur í óperuhúsum víðsvegar um Þýskaland, auk þess að syngja í Austurríki, Sviss, Frakklandi og Svíþjóð.

Hún hefur sungið öll helstu verk kirkjubókmenntanna. Meðal stærri tónleika eru Carmina Burana og Requiem Mozarts í tónlistarhöllinni í Hamborg, Messías í Hamborg og Strahlsund, c-moll messa Mozarts í Hamborg og Kaiserslautern, Stabat Mater eftir Rossini í Wiesbaden, Les Noces eftir Stravinski í Goslar og óperettugala í Fílharmóníunni í Berlín og í óperunni í Frankfurt.

Hlín flutti heim haustið 2004 og kennir nú við Listaháskóla Íslands, Tónlistarskólann í Reykjavík og Söngskóla Sigurðar Demetz, auk þess að halda söngnámskeið. Hún lauk námi í starfrænni söngtækni frá Lichtenberger Institut vorið 2012. Á Íslandi hefur Hlín sungið hlutverk Musettu í La Bohème eftir Puccini, Chlorindu í Öskubusku eftir Rossini og Ännchen í Galdraskyttunni eftir Weber. Hún kemur reglulega fram á kammertónleikum og heldur ljóðatónleika, bæði hér heima og erlendis.

Hlín var formaður Félags íslenskra söngkennara og FÍT, klassískrar deildar FÍH um nokkurra ára skeið.

Styrktar- og samstarfsaðilar