Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað

Sópran

hrafnhildur

Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað er sópransöngkona og kórstýra Vox feminae en hún tók við stjórn kórsins árið 2019 úr höndum stofnanda kórsins Margrétar J. Pálmadóttur.

Hrafnhildur lærði óperusöng í Amsterdam og útskrifaðist frá Hollensku óperuakademíunni árið 2015 með Valerie Guillorit og Margreet Honig sem aðalkennara. Áður lauk hún burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Dóru Reyndal.

Í Hollandi starfaði Hrafnhildur eftir útskrift og kom víða fram á tónleikum og í óperusýningum. Hún kom m.a. fram hjá Hollensku þjóðaróperunni í Amsterdam, Nationale Reisopera, á tónleikaferðalagi um allt land með DommelGraaf theater, á tónlistarhátíðum eins og Grachtenfestival, Uitmarkt og á viðburðum m.a. í Concertgebouw, Stedelijk museum og Vondelpark. 

Hrafnhildur kemur reglulega fram sem einsöngvari á Íslandi og meðal verkefna hennar undanfarin ár eru La Traviata hjá Íslensku óperunni, Jólatónleikar og Vínartónleikar hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands, einsöngur á vortónleikum Karlakórs Reykjavíkur, tónleikar á hátíðunum Sönghátíð í Hafnarborg, Listahátíð í Reykjavík, Músík í Mývatnssveit, Reykholtshátíð og Óperudögum. Einnig hefur hún komið fram á sumartónleikaröð í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar, hjá Kammermúsíkklúbbnum, og sem einsöngvari við ýmis önnur tækifæri.