Jóhann G. Jóhannsson
tónskáld

Að loknu námi í Bandaríkjunum og Svíþjóð starfaði Jóhann G. Jóhannsson sem tónlistarstjóri Leikfélags Reykjavíkur (1981-’91) og Þjóðleikhússins (1991-2010), stjórnaði þá tónlist við fjölda söngleikja og samdi einnig leikhústónlist af ýmsu tagi. Í seinni tíð hefur Jóhann helgað sig tónsmíðum og textagerð auk þess að útsetja fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands, m.a. tónlist sína við „Skilaboðaskjóðuna" og tónlistarævintýri sitt um „Strákinn og slikkeríið". Annað tónlistarævintýri Jóhanns, „Tumi fer til tunglsins“, var frumflutt á Barnamenningarhátíð í Hörpu vorið 2024 og um leið kom út myndskreytt bók með texta ævintýrisins, sem einnig er höfundarverk Jóhanns og allur í bundnu máli. Verkið var hljóðritað og tilnefnt til Íslensku tónlistarverðlaunanna og Grímuverðlauna.
Lag og ljóð Jóhanns, „Landið mitt“, var valið vinningsverkið í samkeppni um nýtt kórverk í tilefni hundrað ára fullveldis Íslands 2018. Geisladiskurinn „Best að borða ljóð“ og samnefnd nótnabók hefur að geyma 24 sönglög Jóhanns við valin ljóð Þórarins Eldjárns, og sönglög Jóhanns við ljóð Halldórs Laxness hafa einnig verið gefin út á geisladisk og nótnabók.
Konsert Jóhanns fyrir sópranrödd og hljómsveit, “Be not afeard”, við texta úr Ofviðri Shakespeares var frumfluttur af syngjandi stjórnandanum Ragnheiði Ingunni Jóhannsdóttur á Óperudögum í nóv. 2022 og hljóðritaður með henni og Sinfóníuhljómsveit Íslands í ágúst 2024.
Á Óperudögum í Hörpu haustið 2024 var frumflutt verk Jóhanns, „Kall“, fyrir kammerkvintett og ljóðmælanda (Ingvar E. Sigurðsson) við ljóð Þorvaldar Þorsteinssonar, og á sömu tónleikum var „Pierrot lunaire“ Schönbergs flutt á íslensku í fyrsta sinn, en þýðing ljóðanna var verk Jóhanns.
„Daðrað við tónlistargyðjuna í 70 ár“ er yfirskrift tónleika á Óperudögum 25. október 2025 sem helgaðir eru tónlist Jóhanns í tilefni af stórafmæli hans á árinu. Þar hljóma nýjustu verk hans, „Frá Löngumýri til Piran“, strengjasvíta í sjö þáttum, og „Besta orðið mitt“, dúó fyrir sópranrödd og tenórsaxófón við samnefnt ljóð Dags Sigurðarsonar, auk þess sem Cantoque Ensemble flytur þar fimm kórlög Jóhanns við ljóð Nóbelsskáldsins undir stjórn Ragnheiðar Ingunnar Jóhannsdóttur, en Spotify-útgáfa með þeim flutningi ásamt tveimur öðrum verkum Jóhanns er væntanleg síðar í vetur.












