María Konráðsdóttir
Sópran

María Konráðsdóttir byrjaði ung að spila á klarinett og lauk burtfararprófi á klarinett frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 2007 undir handleiðslu Kjartans Óskarssonar. Ári síðar byrjaði hún í söngnámi þar sem kennari hennar var Dr. Þórunn Guðmundsdóttir en að loknu tveggja ára námi við skólann lá leiðin til Berlínar í framhaldsnám. Sumarið 2015 lauk hún bakkalárgráðu frá Listaháskólanum í Berlín þar sem kennarar hennar voru m.a. Carola Höhn, Hendrik Heilmann og Eric Schneider. Hún útskrifaðist með meistaragráðu í ljóða- og óratoríusöng frá sama skóla vorið 2018.
María hefur komið fram á fjölda tónleika bæði hér á landi og í Þýskalandi og unnið til alþjóðlegra verðlauna. Hún hefur sungið í tónleikaröðum á borð við Klassík í Salnum og Á ljúfum nótum í Fríkirkjunni og á hátíðum eins og Óperudagar, Reykjavík Early Festival, Myrkir Músíkdagar og Sumartónleikar í Skálholti en hún söng titilhlutverkið í óperunni Dido and Aeneas eftir Purcell sem sett var upp á hátíðinni árið 2025.
Haustið 2024 kom hún fram sem einsöngvari með Sinfóníuhljómsveit Íslands á barokktónleikum undir stjórn Peter Hanson. Sama ár tók María tók þátt í tónleikum og tónlistarmyndbandi með sellóleikaranum Yo-yo Ma þar sem flutt var tónlist eftir Viktor Orra Árnason. Nýlega söng hún hlutverk Florestine í óperunni Hliðarspor eftir Þórunni Guðmundsdóttur sem sett var upp í Gamla bíó.
María hefur einnig sungið með sönghópnum Cantoque Ensamble og er meðlimur í Yrkju, nýstofnuðum kvennasönghóp sem mun m.a. flytja Næturvöku Rachmaninoff í Norðurljósum í vetur.
María hefur tekið þátt í meistaranámskeiðum m.a. hjá Peter Harvey, Dame Emma Kirkby, Janet William og Hans Christoph Rademann.
Meðfram söngnum stýrir María Barnakór Seltjarnarneskirkju og er klarinettukennari við Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar.