Das süsse Lied verhallt

Salurinn · fös 29. okt kl. 20:00
wagner.jpg

Kvöldstund tileinkuð tónlist eftir Richard Wagner

Tónleikar í Salnum í samstarfi við Richard Wagner félagið þar sem fluttar verða perlur úr óperum Wagners. Hrólfur Sæmundsson baritón, Margrét Hrafnsdóttir sópran og Egill Árni Pálsson tenór, ásamt Hrönn Þráinsdóttur píanóleikara eru flytjendur á tónleikunum en Árni Blandon leikari og bókmenntafræðingur mun leiða tónleikagesti inn í ástir og örlög sögupersónanna í veröld Wagners.

Richard Wagner var stórhuga tónskáld og hugmyndir hans um samspil sjónleiks og tónlistar, eða Gesamtkunstwerk voru þaulhugsaðar. Það veldur því oft að óperur Wagners þykja flóknar í uppsetningu og flutningi og jafnvel óaðgengilegar fyrir almenning. Á þessum tónleikum freista flytjendur þess að skyggnast inn í heim Wagners með tónlistina í forgrunni, efnisskráin samanstendur af aríum og dúettum sem eru í dálæti hjá flytjendum, tónlistin er munúðarfull, leikandi og hreyfir við tilfinningum fólks.  

Á efnisskrá tónleikanna er aría Wolfram úr Tannhäuser, O, du mein holder Abendstern, aría Rienzi úr Allmächtger Vater sem ber sama nafn og óperan og aría Isolde, Liebestod úr Tristan und Isolde.

Á tónleikunum mun fléttast saman við tónlistina glefsur úr lífshlaupi Richard Wagner og Árni Blandon mun varpa ljósi á söguþráð hverrar aríu og dúetts fyrir sig. Listamennirnir sem leiða saman hesta sína á tónleikunum eru miklir Wagner unnendur og brenna fyrir því að færa hlustendum tónlist hans í tónleikaformi, við bestu mögulegu aðstæður eins og finna má í Salnum tónleikahúsi.

Þátttakendur

Hrólfur Sæmundsson
baritón