Elín Gunnlaugsdóttir

Tónskáld

Elín

Elín Gunnlaugsdóttir (1965) nam tónsmíðar við Tónlistarskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan 1993. Árið 1998 lauk hún framhaldsnámi í tónsmíðum frá Konunglega tónlistarháskólanum í Den Haag. Þar voru kennarar hennar í tónsmíðum þeir Theo Loevendie og Diderik H. Wagenaar. Hún hefur frá því hún útskrifaðist unnið við tónsmíðar og kennslu.

Verkaskrá Elínar samanstendur af kammerverkum og söngverkum, en hún hefur meðal annars skrifað fyrir Caput-hópinn, Camerarctica og Schola Cantorum auk Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Elín hefur á seinustu árum unnið náið með flautleikaranum Pamelu De  Sensi og hefur skrifað fyrir hana fjögur flautuverk sem hún hefur flutt bæði hér heima og erlendis. Þá hefur hún samið fjögur tónleikhúsverk fyrir börn á undanförnum tíu árum. Verkin eru barnaballettinn Englajól (2010/2012), söngleikurinn Björt í sumarhúsi (2015) og tónleikhúsið Nú get ég (2018) við texta eftir Þórarinn Eldjárn. Tónlistarævintýrið Drekinn innra með mér (2018) fyrir sögumann og sinfóníuhljómsveit við texta eftir Lailu Arnþórdóttur. Elín hefur seinustu árin einnig fikrað sig inn á svið mynd- og ritlistar og hefur hún gefið út tvö tónverk á bók og árið 2020 kom út ljóðabókin Er ekki á leið - Strætóljóð

Styrktar- og samstarfsaðilar