Guja Sandholt

Listrænn stjórnandi og söngkona

gujapromomynd.jpg

Guja Sandholt býr í Reykjavík og Amsterdam og starfar sem sjálfstætt starfandi söngkona og listrænn stjórnandi Óperudaga. Á undanförnum árum hefur hún komið víða fram í Hollandi og víðar, m.a. í Concertgebouw í Amsterdam, Fílharmóníunum í París, Lúxemborg og Hong Kong; Hörpu og á Grachtenfestival, Holland Festival, Reykholtshátíð og Óperudögum. Nýlega söng hún hlutverk Leonore í uppfærslu Óperudaga á Fidelio-atlaga að óperu eftir Beethoven í leikgerð Bjarna Thors Kristinssonar; Juliu Child í súkkulaðikökuóperunni Bon Appétit! eftir Lee Hoiby og Popovu í The Bear eftir William Walton. Sumarið 2019 stóð hún fyrir íslenskum frumflutningi á víkingaóperunni King Harald's Saga eftir Judith Weir og var í kjölfarið tilnefnd sem Söngkona ársins í sígildum flokki á Íslensku tónlistarverðlaununum.

Guja kemur oft fram sem einsöngvari í flutningi á óratoríum á borð við Mattheusarpassíuna og Jólaóratoríuna eftir J.S.Bach, Requiem eftir Mozart og Duruflé, Stabat mater eftir Dvorak, Pergolesi og Arvo Pärt, Messías eftir Handel og Messu í C eftir Beethoven. Hún syngur einnig reglulega með Hollenska útvarpskórnum þar sem hún gegnir hálfri stöðu. Auk þess kemur hún oft fram á ljóðatónleikum með Heleen Vegter, píanista. Árið 2013 fór hún sem styrkþegi Wagner-félagsins til Bayreuth í Þýskalandi og á árunum 2011-2012 starfaði hún fyrir eistneska tónskáldið Arvo Pärt og fjölskyldu hans um hríð. Guja hefur hlotið listamannalaun frá Launasjóði listamanna nokkrum sinnum.

Á næstunni mun Guja taka þátt í uppfærslu Óperudaga á Mattheusi unga, styttri og sviðsettri leikgerð af Mattheusarpassíu J.S. Bach fyrir unga og eldri áheyrendur; Verdi Requiem á vegum Norðuróps; kammeróperunni As one sem og ýmsum verkefnum í Hollandi.

Guja stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, Guildhall School of Music and Drama í London, Mozarteum tónlistarháskólann í Salzburg og Konservatoríið í Utrecht í Hollandi. Kennarar hennar í Hollandi voru Jón Þorsteinsson tenór og söngkennari við Konservatoríið í Utrecht og Charlotte Margiono sópransöngkona. Frá árinu 2017 hefur hún sótt einkatíma hjá Stephanie Doll í Düsseldorf.

Nú til dags hefur Guja mikinn áhuga á að fást við fjölbreytt verkefni með áherslu á tónlist og samfélagsleg gildi. Þess vegna hafa Óperudagar verið dýrmætt tækifæri til að kanna nýjar söngslóðir á Íslandi og um leið mynda þéttan kjarna af fólki með svipaðar ástríður og markmið. 

www.gujasandholt.com