Guja Sandholt

Listrænn stjórnandi og söngkona

gujapromomynd.jpg

Guja Sandholt býr í Reykjavík og Amsterdam og starfar sem sjálfstætt starfandi söngkona og listrænn stjórnandi Óperudaga. Á undanförnum árum hefur hún komið víða fram í Hollandi og víðar, m.a. í Concertgebouw í Amsterdam, Fílharmóníunum í París, Lúxemborg og Hong Kong; Hörpu og á Grachtenfestival, Holland Festival, Reykholtshátíð og Óperudögum. Nýlega söng hún hlutverk Leonore í uppfærslu Óperudaga á Fidelio-atlaga að óperu eftir Beethoven í leikgerð Bjarna Thors Kristinssonar; Juliu Child í súkkulaðikökuóperunni Bon Appétit! eftir Lee Hoiby á Íslandi; hlutverk söngvara í leikgerð Albertar Hoex á Mattheusi unga og Popovu í The Bear eftir William Walton. Sumarið 2019 stóð hún fyrir íslenskum frumflutningi á víkingaóperunni King Harald's Saga eftir Judith Weir og var í kjölfarið tilnefnd sem Söngkona ársins í sígildum flokki á Íslensku tónlistarverðlaununum.

Guja hefur víða komið fram sem einsöngvari í flutningi á óratoríum á borð við Mattheusarpassíuna og Jólaóratoríuna eftir J.S.Bach, Requiem eftir Verdi, Mozart og Duruflé, Stabat mater eftir Dvorak, Pergolesi og Arvo Pärt, Messías eftir Handel, Gloriu eftir Vivaldi og Messu í C eftir Beethoven. Hún syngur einnig reglulega með Hollenska útvarpskórnum þar sem hún gegnir hálfri stöðu. Auk þess kemur vinnur hún reglulega með Heleen Vegter, ljóðapíanista. Árið 2013 fór hún sem styrkþegi Wagner-félagsins til Bayreuth í Þýskalandi og á árunum 2011-2012 starfaði hún fyrir eistneska tónskáldið Arvo Pärt og fjölskyldu hans um hríð. Guja hefur hlotið listamannalaun frá Launasjóði listamanna nokkrum sinnum.

Á næstunni mun Guja taka þátt í ýmsum verkefnum á Íslandi, í Hollandi og Hong Kong, t.d. Ríkharði III eftir Sigurð Sævarsson; As one-verkefni eftir Laura Kaminsky í leikstjórn Örnu Magneu Danks; flutningi á Mozart Requiem Singalongi í Hallgrímskirkju; Stabat mater eftir Arvo Pärt og sýningunni Bach Battle á Bach-hátíðarvikunni í Luther Museum í Amsterdam árið 2024. Þá mun hún halda söngtónleika með yfirskriftinni Element - kjörnun fyrir kvöldmat! ásamt Heleen Vegter í Hörpuhorni þann 24. október næstkomandi.

Guja stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, Guildhall School of Music and Drama í London, Mozarteum tónlistarháskólann í Salzburg og Konservatoríið í Utrecht í Hollandi. Kennarar hennar í Hollandi voru Jón Þorsteinsson tenór og söngkennari við Konservatoríið í Utrecht og Charlotte Margiono sópransöngkona. Frá árinu 2017 hefur hún sótt einkatíma hjá Stephanie Doll í Düsseldorf.

Nú til dags hefur Guja mikinn áhuga á að fást við fjölbreytt verkefni með áherslu á tónlist og samfélagsleg gildi. Þess vegna hafa Óperudagar verið dýrmætt tækifæri til að kanna nýjar söngslóðir á Íslandi og um leið mynda þéttan kjarna af fólki með svipaðar ástríður og markmið. 

www.gujasandholt.com