Hildigunnur Einarsdóttir

Söngkona

Hildigunnur Einarsdóttir

Hildigunnur Einarsdóttir lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og Signýjar Sæmundsdóttur og stundaði framhaldsnám í Þýskalandi og Hollandi hjá Janet Williams og Jóni Þorsteinssyni. Hildigunnur hefur einnig lokið B.A. prófi í skapandi tónlistarmiðlun frá Listaháskóla Íslands. Hildigunnur stjórnar ÁR kórnum í Reykjavík og Kvennakórnum Kötlu ásamt Lilju Dögg Gunnarsdóttur. Hildigunnur kennir einnig söng við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Söngskólann Domus Vox og syngur m.a. með Schola cantorum og Cantoque Ensemble. Hildigunnur kemur reglulega fram sem einsöngvari og hefur verið áberandi í kirkjutónlistarsenunni. Hún hefur m.a. sungið einsöngshlutverkin í Messías og Judas Maccabeus eftir Händel, Mattheusarpassíu, Jóhannesarpassíu og Jólaóratoríuna eftir Bach og Guðbrandsmessu eftir Hildigunni Rúnarsdóttur. Hildigunnur hefur sungið einsöng m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Barokksveitinni Brák og Kammersveit Reykjavíkur og frumflutt fjölda verka m.a. eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson, Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur og Kolbein Bjarnason. Hildigunnur var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2014 fyrir túlkun sína á sönglögum Karls O. Runólfssonar með kammerhópnum Kúbus.