Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir

sópran og hljómsveitarstjóri

Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir

Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands vorið 2021 með tvöfalda bakkalársgráðu í fiðluleik og söng með hljómsveitarstjórn sem aukafag. Síðastliðið vor var hún ein af sex ungum stjórnendum sem hlutu inngöngu í nýstofnuðu alþjóðlegu Malko hljómsveitarstjóraakademíuna í Kaupmannahöfn með Danish National Symphony Orchestra í DR tónlistarhúsinu þar sem hún nýtur handleiðslu Fabio Luisi, Ole Faurschou og Henrik Vagn Christensen næstu tvö árin. Frá hausti 2021 hefur hún stundað meistaranám í söng við Konunglega tónlistarháskólann í Stokkhólmi hjá Åsu Bäverstam og Magnus Svensson þaðan sem hún útskrifast næsta vor.

Ragnheiður vann klassísku söngkeppnina Vox Domini vorið 2022, var valin Rödd ársins og fékk 1. verðlaun í efsta flokki. Sem barn lék hún í söngleikjum í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu og steig sín fyrstu skref á listabrautinni sem Kamilla í Kardemommubænum átta ára gömul. Hún hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit MÍT, gegnt stöðu konsertmeistara Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Sinfóníuhljómsveitar unga fólksins og Sinfóníuhljómsveitar MÍT og leikið í Sinfóníuhljómsveit Íslands og Orkester Norden.

Haustið 2020 var hún valin í hljómsveitarstjóraakademíu Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir handleiðslu Evu Ollikainen og sumarið 2019 sótti hún hljómsveitarstjóranámskeið hjá Alice Farnham í London. Ragnheiður fór með hlutverk Lísu í uppfærslu Listaháskóla Íslands á óperunni Furðuveröld Lísu eftir John Speight vorið 2021 og hefur komið fram sem einsöngvari með kórum í Stokkhólmi, m.a. í Mattheusarpassíu Bachs. Hún söng í óperunni Hrafntinnu á Listahátíð í Reykjavík vorið 2022 og kom fram á tónleikunum Meiri Mozart! á Sönghátíð í Hafnarborg í júní 2022. Sem fiðluleikari hefur hún hljóðritað tónlist af ýmsu tagi með fjölbreyttum hópi listamanna og komið fram með þeim á tónleikum og tónlistarhátíðum hér heima og í London, Þýskalandi og Hollandi.

Mynd: Francisco Javier Jáuregui