Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir
sópran og hljómsveitarstjóri

Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir (f. 2000) var valin „bjartasta vonin“ á Íslensku tónlistarverðlaununum 2023 og tilnefnd sem söngvari og flytjandi ársins 2025.
Hún lauk tvöfaldri bakkalársgráðu í fiðluleik og söng frá Listaháskóla Íslands vorið 2021 og meistaranámi í söng við Konunglega tónlistarháskólann í Stokkhólmi vorið 2023. Hún útskrifaðist úr Malko hljómsveitarstjóraakademíunni í Kaupmannahöfn 2024 og stjórnaði Dönsku þjóðarhljómsveitinni í 4. sinfóníu Mahlers á útskriftartónleikunum. Nú nemur hún við Tónlistarháskólann í Osló, þaðan sem hún lýkur gráðu í hljómsveitarstjórn og söng vorið 2026. Veturinn 2024-2025 stundaði hún einnig hljómsveitarstjórnarnám við Royal Academy of Music í London í "Glover-Edwards Conducting Programme".
Ragnheiður söng og stjórnaði kammersveit á tónleikunum „Hvað syngur í stjórnandanum?“ á Óperudögum 2022 og frumflutti þrjú verk, samin fyrir tilefnið. Hún hljóðritaði svo tvö verkanna með Sinfóníuhljómsveit Íslands 2024. Hún vann söngkeppnina Vox Domini vorið 2022, söng einsöngshlutverkið í 4. sinfóníu Mahlers með Sinfóníuhljómsveit unga fólksins í mars 2023 og kom fram á tónleikunum Ungir einleikarar með Sinfóníuhljómsveit Íslands í maí 2023.
Ragnheiður söng og stjórnaði kammersveit (samtímis) á tónleikunum „Hvað syngur í stjórnandanum?“ á Óperudögum 2022 og frumflutti þrjú verk, samin fyrir tilefnið. Hún hljóðritaði svo tvö verkanna með Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrir RÚV 2024. Hún vann söngkeppnina Vox Domini 2022, söng einsöngshlutverkið í 4. sinfóníu Mahlers með Sinfóníuhljómsveit unga fólksins 2023 og söng og stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikunum Ungir einleikarar sama ár. Hún söng verkið „Kafka Fragments“ með fiðluleikaranum Rannveigu Mörtu Sarc á Óperudögum haustið 2023 og söng og stjórnaði meistaraverki Schönbergs, „Pierrot lunaire“, á Óperudögum 2024, auk þess að stjórna tónlistarævintýrinu „Tumi fer til tunglsins“ eftir Jóhann G. Jóhannsson.
Hún hefur stjórnað Barnastund Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sjónvarpsupptökum hljómsveitarinnar fyrir Hljómskálann á RÚV og strengjasveitarupptökum á nýjustu plötu Bjarkar, Fossora. Hún stjórnaði Sinfóníuhljómsveit unga fólksins haustið 2023 og Sinfóníuhljómsveit og strengjasveit MÍT 2024.
Hún var ráðin stjórnandi Young Nordic Opera Choir árið 2025 og stjórnaði kórnum á tónleikum á Nordic Song Festival í Svíþjóð og Herning Opera Festival í Danmörku með Sinfóníuhljómsveit Árósa. Næstu tónleikar kórsins fara fram í Hörpu með Elju kammersveit 26. október 2025. Þá mun hún einnig stjórna kammerkórnum Cantoque Ensemble á Óperudögum 25. október og frumflytja dúó eftir Jóhann G. Jóhannsson með Sigurði Flosasyni.
Ragnheiður lauk meistaranámi í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst 2024 og hefur unnið sem verkefnastjóri fyrir Óperudaga frá árinu 2022. Hún leikur reglulega á fiðlu í Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Mynd: Dominik Falenski, DR