Sigríður Ásta Olgeirsdóttir

Söngkona og leikkona

Screenshot 2023-10-16 at 00.38.06

Sigríður Ásta Olgeirsdóttir, leikari og söngvari, er útskrifuð með BA gráðu frá Copenhagen International School of Performing Arts. Áður stundaði hún söngnám við Söngskólann í Reykjavík og Tónlistarháskólann í Vínarborg ásamt því að sækja einkatíma til lengri tíma hjá ýmsum söngkennurum en þar má nefna prof. André Orlowicz, prof. Helene Karusso og Janet Haney

Sigríður skrifaði og setti upp einleikinn „Hulið“ í Tjarnarbíói í leikstjórn Halldóru Rósu Björnsdóttur vorið 2023. Verkið hlaut verðlaunin Baltic Nordic Fringe Network Award á Reykjavík Fringe Festival og mun ferðast um Skandinavíu og Balkan-löndin næsta vor. Hún lék í sýningunni „Heimferð“ í leikstjórn Gretu Clough sem var Eyrarrósarsýning Listahátíðar í Reykjavík 2022.

Sumarið 2022 skrifaði hún og lék einleik í tónleikhússýningu um Ferðir Guðríðar Þorbjarnardóttur ásamt píanódúettinum IsNord. Sýningin fór í sýningarferðalag um landið.
Sigríður gerði leikgerð að Barnasýningunni „Dýravísur“ við tónlist Jónasar Ingimundarsonar í uppsetningu Kammeróperunnar og leikstjórn David Chocron sem sýnt var í Kaldalóni á Big Bang hátíðinni 2023.

Í janúar 2023 lék hún grjótastelpuna Urði í hálfgrímusýningunni „Ég heiti Steinn“ í leikstjórn Lucas Rastoll sem sett var upp í Frystiklefanum á Rifi í samstarfi við Reine Mer leikhúsið í Frakklandi. Sýningin verður sýnd í Tjarnarbíói í byrjun árs 2024.

Sigríður er annar stofnenda Sviðslistahópsins Flækju sem hefur skrifað og sett upp farandsýningar fyrir leikskólabörn síðan 2019.

Sigríður var leikstjóri Söngleikjadeildar Tónlistarskóla Borgarfjarðar 2019-2023 og hefur starfað sem leikstjóri og söngkennari við Söngskólann í Reykjavík síðan 2020. Hún starfar við að kenna bæði fullorðnum og börnum leiklist og söng og hefur leikstýrt hinum ýmsu uppfærslum. Sigríður situr í stjórn Sjálfstæðu leikhópanna og fulltrúaráði Sviðslistasambandsins.

Styrktar- og samstarfsaðilar