Svanlaug Jóhannsdóttir

Söngkona

72644791_932729487084143_35098343893893120_n.jpg

Svanlaug Jóhannsdóttir söngkona lauk mastersnámi frá Listaháskóla Íslands í NAIP eða „Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi”. Hún notar augnabliksáhrif tónlistar og sagna til að slíta raunveruleikan úr samhengi og ná inn í sálartetur áhorfandans. Hún setti nýlega upp eigið verk í Tjarnarbíói „Í hennar sporum“, sögur af hvetjandi konum. 

Á Íslandi hefur hún helst lært með Sigríði Ellu Magnúsdóttur, Signý Sæmundsdóttur og Margréti Pálmadóttur og fékk aðeins 19 ára gömul að syngja einsöng með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún var um fimm ára skeið búsett á Spáni og söng þar reglulega með sinfóníuhljómsveit í Talavera de la Reina. Þar sótti hún söngþjálfun hjá mezzó-sópraninum Alicia Nafé sem prýtt hefur öll helstu svið klassískrar tónlistar í heiminum. 

Hún féll fyrir argentískri tangó-tónlist eftir örnámskeiði á Íslandi og fór hálfu ári síðar í námsferð í eina önn til Argentínu til þess að lifa og anda að sér tónlistarstefnunni. Hún leikur sér að því að blanda saman stílum og stefnum. 

Hún setti upp söngleikinn Litla stúlkan með eldspýturnar í Íslensku Óperunni sem tilnefnd var til Grímuverðlauna. Sú vinna leiddi hana til London þar sem hún vann sem aðstoðarleikstjóri og sýningarstjóri við fjögur leikhús á West End. 

Eftir að hafa flutt heim til Íslands hefur hún helst unnið við sögutónleika þar sem hún er bæði söngkona og sögumaður og breytir tónleikasviðinu í lítið leikhús. Hún hefur einnig fengist við leikstjórn tónleika í Hofi og Hörpu. 

www.svana.live

Styrktar- og samstarfsaðilar