Helga Bryndís Magnúsdóttir

Píanóleikari

Helga Bryndís Magnúsdóttir

Helga Bryndís Magnúsdóttir lauk einleikara- og kennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1987 þar sem aðalkennari hennar var Jónas Ingimundarson. Hún stundaði síðan framhaldsnám við Konservatoríið í Vínarborg hjá Leonid Brumberg og Sibeliusarakademíuna í Helsinki, hjá Liisu Pohjola og Tuiju Hakkila. Hún hefur leikið fjölmörg einleiksprógrömm, m.a. í Salnum í Kópavogi, á Listahátíð í Reykjavík og um allt land. Hún hefur auk þess leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, píanókonserta eftir Ravel, Poulenc, Brahms, Gershwin og Bach. Helga Bryndís lék einleik í beinni sjónvarpsútsendingu á Norðurlöndunum í spurningaþættinum Kontrapunkti. Hún hefur leikið mikinn fjölda tónleika með fremstu söngvurum og hljóðfæraleikurum landsins og hljóðritað marga geisladiska í samstarfi við aðra en einnig gefið út disk með einleiksverkum eftir Robert Schumann, Carnaval og Fantasiu. Hún er meðlimur í Caput hópnum og hefur síðustu ár leikið í Sinfóníuhljómsveit Íslands og í Kammersveit Reykjavíkur og hefur tekið þátt í fjölda kammertónleika. Hún hefur einnig gert upptökur fyrir sjónvarp og útvarp, bæði ein og með öðrum.