Jara Hilmarsdóttir

mezzósópran

Jara

Jara Hilmarsdóttir (mezzósópran) hóf tónlistarnám sitt 7 ára gömul í kórastarfinu í Langholtskirkju undir stjórn Jóns Stefánssonar, þar sem hún söng allt til 23 ára aldurs. Hún var einnig meðlimur í kórunum í Hamrahlíð í 7 ár undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Jara kom oft fram sem einsöngvari með báðum kórum, bæði innanlands og sem og í ferðum erlendis, til dæmis á Europa Cantat kórahátíðinni og í mörgum flutningum á A Ceremony of Carols eftir Benjamin Britten með Graduale Nobili. 

Hún lærði hjá Hörpu Harðardóttur í Söngskólanum í Reykjavík og lauk þaðan 8. stigs prófi með ágætiseinkunn árið 2017. Þá lærði hún hjá Hönnu Dóru Sturludóttur í Söngskóla Sigurðar Demetz í eitt ár en hóf svo Bachelornám við tónlistarháskólann í Köln, Hochschule für Musik und Tanz Köln í Þýskalandi árið 2018. Þar lærði hún undir leiðsögn Prof. Lioba Braun. Skólinn er stærsti tónlistarháskóli Evrópu og var Jara ein af þremur sem tekin voru inn á fyrsta ár til bachelor gráðu í klassískum söng haustið 2018. Hún útskrifaðist þaðan sumarið 2022.

Jara hefur tekið þátt í fjölda nemendaóperuuppfærslna og sungið á mörgum tónleikum við margs konar tilefni innanlands sem erlendis, sem og tekið þátt í mörgum námskeiðum (masterclass). Hún hefur einnig sungið og spilað á slagverk með salsasveitinni Salsakommúnunni.

Jara starfar nú baksviðs í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu sem sviðsmaður og propsari og var aðstoðarleikstjóri og sýningarstjóri á óperunni Fidelio sem sett var upp af Óperudögum í Hörpu 2021. 

Styrktar- og samstarfsaðilar