Ástin, ein taugahrúga

Norðurljós, Harpa · lau 28. okt kl. 18:00
Ástin

Ástin ein taugahrúga, enginn dans við Ufsaklett er ný kammerópera eftir Önnu Halldórsdóttur við ljóðabók Elísabetar Jökulsdóttur sem hér er flutt í tónleikauppfærslu. Verkið er fyrir mezzosópran, selló og rafhljóð og er í uppsetningu Spindrift Theatre. Flytjendur verksins eru Tinna Þorvalds Önnudóttir, söng- og leikkona og Júlía Mogensen, sellóleikari.

Miðasala

Ljóð Elísabetar eru ýmist sungin eða leikin og sellóleikarinn er virkur þátttakandi í frásögninni sem dansar á mörkum tónlistar og leikhúss.

Hvað gerir man ekki til þess að tilheyra? Fá að vera með? Verkið er þroskasaga konu og barátta draumsins við raunveruleikann. Baráttan er spegluð í ofbeldisfullu ástarsambandi frá upphafi til enda og við veltum fyrir okkur: hvað er það sem gerir man að “alvöru konu” - Og hvar leynist hinn raunverulegi lykill að öllu saman?

Söguhetjan er með geðhvörf sem litar frásögnina þannig að úr verður rússibanareið á milli alsælu og dýpsta þunglyndis. En hvort sem persónan er stödd á toppnum eða botninum er kímnin aldrei langt undan. Ljóðin eru hversdagsleg og hádramatísk í senn og óperuformið passar þeim einstaklega vel. Það upphefur dramatíkina þegar hún á við og hversdagsleikinn verður afar skýr og kómískur þegar hann skín í gegn Tónlist Önnu Halldórsdóttur gefur textanum nýja vídd og er bæði grípandi og aðgengileg. Segja má að hún höfði til breiðs markhóps og geti jafnt fangað athygli þeirra sem hafa lítið hlustað á óperur, sem og óperuáhugafólks.

Ljóðabók Elísabetar fékk Fjöruverðlaunin árið 2015 og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs sama ár.

Verkið var áður flutt á Myrkum Músíkdögum í janúar síðastliðnum og viðbrögð sýningargesta voru sterk, en hér eru dæmi um nokkur þeirra auk viðbragða ljóðskáldsins sjálfs:

“Ástin ein taugahrúga, enginn dans við Ufsaklett, þar er leikið á selló svo af ber. Anna Halldórsdóttir semur músíkina og skrifar fyrir verkið. Ég fór að sjá frumsýningu og hvílík gæðasýning, dramatísk, húmorísk, prófessjónal og skemmtileg. Tinna Þorvalds Önnudóttir  fór með hlutverkið í leiknum, hún fór á kostum og ég er í sjöunda himni … Hjartað hitnaði og þarafleiðandi skv. eðlisfræðilögmálum stækkaði. Það var dásamlegt að sjá og heyra ljóðabókina mína lifna við.”

Elísabet Jökulsdóttir, Ljóðskáld og rithöfundur

“Kammeróperan Ástin ein taugahrúga er sannarlega skemmtileg viðbót í óperusenuna. Snjöll lausn að blanda saman raftónlist og lifandi flutningi. Allur flutningur var til fyrirmyndar og sérstaklega var textaframburður söngkonunnar til fyrirmyndar. Sviðssetningin skapaði djúpa tengingu við efniviðinn, með húmorísku ívafi sem hentar ljóðunum vel og sýningin öll einkenndist af nánd og hlýju.”

Ólöf Ingólfsdóttir, listakona

“Ástin ein taugahrúga er áleitið verk sem sat í mér lengi á eftir. Verkið er á sama tíma einlægt og átakanlegt en um leið drepfyndið, ferðalag um allan tilfinningaskalann. Tónlistin er grípandi og rímaði vel við texta Elísabetar og flutningurinn afbragðsgóður. Mæli heilshugar með.”

Eyrún Ósk Jónsdóttir, ljóðskáld og sviðslistakona

“Frábær hugmynd að búa til óperu úr ljóðum Elísabetar Jökulsdóttur! Og gaman að sjá og heyra hversu vel tókst til.  Tónlist Önnu er falleg og vönduð og Tinna og Júlía fluttu hana af miklu listfengi.”

Snorri Sigfús Birgisson, tónskáld og píanóleikari

Aðstandendur verksins:

Söngur og rödd: Tinna Þorvalds Önnudóttir

Sellóleikari: Júlía Mogensen

Tónskáld: Anna Halldórsdóttir

Texti: Elísabet Jökulsdóttir

Leikstýra: Bergdís Júlía Jóhannsdóttir

Framkvæmdastýra: Arna Kristín Sigfúsdóttir

Tæknimanneskja og ljósahönnun: Juliette Louste

Dramatúrgar: Tinna Þorvalds Önnudóttir og Anna Halldórsdóttir

Spindrift Theatre er finnsk - íslenskur leikhópur, stofnaður árið 2013 og samanstendur af sjö sviðslistakonum, tvær af hverjum standa að þessu verki.

Tinna Þorvalds Önnudóttir útskrifaðist með BA gráðu í leiklist árið 2010 og hefur í 10 ár, samhliða leiklistinni, stundað klassískt söngnám hjá Alinu Dubik, mezzósópran. Hún er því hvoru tveggja útlærð leik- og söngkona og leitast við að finna forvitnina í óperuforminu.

Bergdís Júlía Jóhannsdóttir útskrifaðist með BA gráðu í leiklist árið 2013 og hefur víðtæka reynslu hvoru tveggja sem leikkona og leikstjóri og leggur um þessar mundir stund á Meistaranám í sviðslistum við Listaháskóla Íslands.

Kvenlægt sjónarhorn einkennir verk Spindrift og hópurinn hefur leitt vinnustofur sínar í Finnlandi, Íslandi, Noregi, Írlandi og Skotlandi og hefur m.a.fengið styrki frá Evrópu Unga fólksins, Reykjavíkurborg, Nordisk Kulturkontakt o.fl. Leikverk hópsins hafa verið sýnd í Tjarnarbíói, Viirus Teater í Finlandi, í Jacksons Lane Theatre, Pleasance Theare og Drayton Arms Theatre í Bretlandi, Trixter teater í Gautaborg, Gaflaraleikhúsinu og í Frystiklefanum í Rifi.

Verkefnið er styrkt af Tónskáldasjóði RÚV og STEFs, Tónlistarsjóði Rannís, Launasjóði Tónflytjenda, Tónskáldssjóði Bylgjunnar og Stöðvar 2, Samfélagssjóði Landsbankans og Menningarsjóði FÍH.

Þátttakendur

sýningarstjóri
sellóleikari

Styrktar- og samstarfsaðilar