Viðburðir

Symposium

Málþing Óperudaga 2020

Á netinu · 13. nóv
Þessi viðburður er liðinn en sjá má upptöku af málþinginu hér: Þekkingarmiðlun á netinu: hugsum út fyrir (svarta) kassann. Sjálfstætt starfandi listamönnum innan óperugeirans, klassískum söngvurum og samstarfsfólki þeirra frá Íslandi, Norðurlöndunum og Evrópu er boðið að taka þátt í eins dags alþjóðlegu málþingi á netinu á vegum Óperudaga í Reykjavík þar sem fram fara kynningar og umræður í kringum þemað „hugsum út fyrir (svarta)kassann“. Á dögum Covid hafa margir þurft að finna nýjar lausnir þegar kemur að því að skapa og/eða sviðsetja sín sviðslistaverk. Fjármagn er oft af skornum skammti og hömlur á sviðssetningum og áhorfenda fjölda geta leitt til þess að hefðbundnar uppsetningar eru ekki lengur mögulegar fjárhagslega eða listrænt séð. En þrátt fyrir það, þá eru margir listamenn að skapa spennandi sviðslist víðsvegar um Evrópu. Hvaða aðferðir eru þau að nota? Með því að deila lausnum, aðferðum og framförum viljum við hvetja og styrkja hina sjálfstætt starfandi senu á tímum sem oft virðist andsnúinn hefðbundnum sviðslistum.  Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt eru vinsamlegast beðnir um að senda tölvupóst á operudagar@operudagar.is til að fá sendan Zoom-þátttökuhlekkinn. Allt sjálfstætt listafólk sem starfar á þessu sviði og samstarfsfólk þeirra eru sérstaklega hvatt til að taka þátt.10:30 AMIntroduction from the moderators: Guja Sandholt, director of Reykjavík Opera Days and Helgi R. Ingvarsson, composer.10:40 AMVenteværelset - Dido & Aeneas, an Isolation Opera11:00 AMVoicings Collective - Walk out of yourself, a lockdown opera11:20 AMNicola Mills - Opera for the people11:40 AMBirgitte Holt Nielsen12:00 PMLunch Break12:30 PMSecond half starts12:40 PMBill Bankes Jones - Téte a Téte festival1:00 PMListahátíð í Reykjavík / Reykjavík Arts Festival - Listagjöf / The Gift of Art1:20 PMFatLadyOpera - Persephone's Dream.1:40 PMOpen Q&A / discussions1:55 PMFinal words from moderators2:00 PMEnd
foto tix.jpg

Líf og dauði

Gamla bíó · 29. okt
Líf og dauði - Mexíkóskur matur og tónleikar í Gamla bíói“Lifum brosandi til þess að deyja glöð” segja Mexíkanar. Það er löngu orðið heimsþekkt hvernig þeir gleðjast yfir þeim sem á undan hafa farið, fagna lífinu, dauðanum og minnast fólksins síns með litríkri gleði og veisluhöldum.Íslendingar hafa tekið hefðinni, “Degi hinna dauðu” fagnandi og á hverju ári skreytir fjöldi fólks sig og nýtur þess að stíga inn í annan hugarheim.Í einstakri veislu í Gamla bíói fer Svanlaug Jóhannsdóttir yfir það í sögum og lögum hvernig hugmyndir dagsins gætu nýst okkur til þess að gæða lífið meiri dýpt og gleði.Gestum býðst að gæða sér á sérhönnuðum fordrykk Don Julio, djúsí tveggja rétta máltíð og njóta tónleika í framhaldi af því - eða mæta beint á tónleika.Söngkona og sögumaður: Svanlaug JóhannsdóttirMatseðill kvöldsinsFordrykkur: Sérhannaður kokteill í tilefni kvöldsins í boði Don Julio Tequila*Forréttur *Stökkar tortilla kökur og guacamoleGrillaður shishito piparNauta flauta*Aðalréttur*TacoHeimagerðar mjúkar maiz kökurLamb barbacoa og hægeldaður grísGuacamole og salsa verdeEf um séróskir er að ræða í sambandi við mat eða sætaskipan þá hafa samband við gamlabio@gamlabio.is Tónlistarstjóri: Guillaume HeurtebizeHljófæraleikarar: Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir, Andri Ólafsson og Eiríkur Rafn Stefánsson.Sviðshönnuður og skúlptúrar: Erla Lilliendahl 
189438946_10159433320722774_6420916945988428932_n.jpg

Heiða, Hilmar, hafið og Helga EA2

Mengi · 21. okt
Heiða Árnadóttir og Hilmar Jensson flytja verkið Home Is Where Your Light Is eftir Ásbjörgu Jónsdóttur í Mengi þann 21. október kl. 20. Á viðburðinum verður einnig myndband við verkið Helga EA2 (fyrir rödd og rafrás) frumsýnt. Í verkunum mætast klassísk tónlist og raftónlist undir áhrifum frá jazztónlist þar sem spuni á ríkan þátt í þeim báðum.Um verkin:Texti verksins Helga EA2 flytur örlagasögu Helgu EA2, skips sem var keypt til Íslands nokkru fyrir þarsíðustu aldamót en ljóð Ragnars S. Helgasonar frá Álftafirði í N-Ísafjarðarsýslu liggur því til grundvallar. Helga, unnusta eins smiðsins lést við sjósetningu skipsins og var eftir það talin verndarengill skipsins og fylgdi því og verndaði þar til skipið sigldi áhafnarlaust út á haf og hefur síðan ekki sést. Verkið er eins konar samtal á milli Helgu og sögumanns. Allt hverfist um röddina, blæbrigði hennar og leiðir hennar til að tjá tilfinningar og segja sögu, án og með orðum.Home Is Where Your Light Is er spunadrifið tónverk sem var samið fyrir Heiðu Árnadóttur og Hilmar Jensson sumarið 2015 af Ásbjörgu Jónsdóttur tónskáldi. Verkið var hluti af verkefninu „Akranesviti: Rými til tónsköpunar” sem fór fram í Akranesvita það sama sumar. Verkið var samið undir áhrifum af rýminu og eiginleikum þess. Í verkinu mætast vitinn, náttúran og hafið á ljóðrænan og mannlegan hátt.Aðgangur er ókeypis. Viðburðurinn er styrktur af Menningarsjóði FÍH og er í samstarfi við Óperudaga.
FB_event_LM_NEW.jpg

The Little Match Girl Passion

Fríkirkjan í Reykjavík · 7. nóv / 8. nóv / 10. nóv
David Lang er eitt mest flutta núlifandi tónskáld Bandaríkjanna en á tónleikunum í Fríkirkjunni í Reykjavík þann 7. nóvember verður verk hans, Little Match Girl Passion á dagskrá sem og sálmar eftir Hildigunni Rúnardóttur. Aðstandendur Óperudaga stóðu fyrir íslenskum frumflutningi á verki Langs á Ljóðadögum Óperudaga árið 2019 en þá var tónskáldið sjálft viðstatt tónleikana. Nú,  tveimur árum síðar, viljum við gjarnan leyfa því að hljóma hér á ný en auk þess að flytja það í Reykjavík, verðum við með nokkra tónleika á landsbyggðinni.David Lang hlaut Pulitzer-verðlaunin árið 2008 fyrir verkið Little Match Girl Passion en efniviðinn sótti hann í söguna um Litlu stúlkuna með eldspýturnar eftir H.C.Andersen sem og Mattheusarpassíu J.S.Bach.Um verkið hefur David Lang skrifað sjálfur: „Ég vildi segja sögu - þessa sérstöku sögu um Litlu stúlkuna með eldspýturnar eftir danska rithöfundinn Hans Christian Andersen. Upprunalega sagan er að því er virðist fyrir börn og í henni birtist átakanlegur samtvinningur af hættu og siðferði sem finna má í mörgum barnasögum. Ung stúlka sem verður fyrir barsmíðum frá föður sínum og reynir án árangurs að selja eldspýtur á götunni. Enginn virðir hana viðlits og hún frýs til dauða. Í gegnum þrautirnar þó ávallt skín kristilegur hreinleiki stúlkunnar í gegn en saga hennar er ekki falleg. Það sem dró að verkinu er það að styrkur þess liggur ekki í söguþræðinum sjálfum heldur þeirri staðreynd að í öllum þáttum - hörmunginni og fegurðinni - skiptast andstæður stöðugt á. Napurleg staða stúlkunnar er lituð af ljúfum minningum frá fortíðinni og í fátækt hennar finnst líka gnægð vonar. Á milli þjáningarinnar og vonarinnar er einhvers konar barnslegt jafnvægi. Verkið mitt heitir Passía litlu stúlkunnar með eldspýtunnar en þar er saga H.C.Andersen sett fram á svipaðan hátt og Mattheusarpassía J.S.Bach [...]. Textinn er eftir mig sjálfan en fyrirmyndirnar eru textar eftir H.C. Andersen, H.P Paulli (sem þýddi söguna fyrst á ensku árið 1872), Piander, textahöfund Mattheusarpassíu Bachs sem og Mattheusarguðspjallið. Orðið passía á rætur sínar að rekja til latneska orðsins yfir þjáningu. Það er enginn Bach í verkinu mínu og enginn Jesús - þjáningu litlu stúlkunnar hefur verið skipt út fyrir þjáningu Jesú og þannig lyft upp (að ég vona) á hærra plan“.
medium_ljod.jpg

LJÓÐ FYRIR LOFTSLAGIÐ

Norðurljós, Harpa · 6. nóv
Ljóð fyrir loftslagið var þema Óperudaga árið 2019 en það var innblásið af loftslagsaktívisma Gretu Thunberg og baltnesku söngbyltingunni árið 1989. Á hátíðinni var efnt til ljóðakeppni fyrir grunnskólanema á Íslandi með ofangreindu þema en um 400 börn sendu inn ljóð um náttúruna, loftslagið, framtíðarsýn sína og drauma. Hugmyndin á bak við ljóðakeppnina var að að fá innsýn inn í hugarheim barna og viðhorf þeirra til þessara málefna og skapa um leið nýjan vettvang fyrir þau til þess að tjá sig í tónum, ljóðum og myndlist. Þannig var markmiðið einnig að efla þátttöku barna í menningarlífinu. Nokkur ungu ljóðskáldanna hlutu verðlaun fyrir ljóðin sín á lokatónleikum hátíðarinnar í Kaldaljósi í Hörpu. Í kjölfarið voru nokkur ung norræn tónskáld fengin til að semja verk við sum ljóðin og önnur norræn barnaljóð. Nýju verkin verða frumflutt í Norðurljósum í Hörpu þann 6. nóvember og hljóðrituð. Um leið verður ný heimasíða opnuð þar sem ljóðin, tónverkin og teikningar barna munu birtast en hugmyndin með heimasíðunni er að börn geti áfram sent inn ljóð og lög til birtingar. Verkefnið hefur nú þegar breiða alþjóðlega vídd og unnið er að frekari þróun verkefnisins með tónlistarhátíðinni Nordic Song Festival í Svíþjóð.Verkefnið er styrkt af Norræna menningarsjóðnum, Loftslagssjóði og Barnamenningarsjóði.
Kimi

Ferðalög - KIMI

Breiðholtskirkja · 23. okt
Ferðalög:Tríóið KIMI leikur eigin útsetningar á þjóðlögum frá Grikklandi, Íslandi og Írlandi ásamt nýjum verkum sem samin eru fyrir hópinn. Má þar nefna og Octopus (2021) eftir bandaríska tónskáldið Marianna Filippi og Ferðalög (2021) eftir íslenska tónskáldið Finn Karlsson. Verkið byggir á þjóðlögum frá Íslandi, Grikklandi og Danmörku - en bæði tríómeðlimir og tónskáldið eru búsett í Kaupmannahöfn.KIMI er skipað Jónasi Ásgeiri Ásgeirssyni harmóníkuleikara (IS), Katerinu Anagnostidou slagverksleikara (GR) og Þórgunni Önnu Örnólfsdóttur söngkonu (IS). Tríóið einblínir einkum á flutning nýrrar tónlistar í bland við eigin útsetningar á þjóðlögum og sönglögum. Sérstök hljóðfærasamsetning hópsins kallar oftar en ekki á náið og spennandi samstarf við tónskáld, má þar nefna Finn Karlsson, Þórönnu Björnsdóttur, Gunnar Karel Másson, Nick Martin og Christos Farmakis sem öll hafa samið fyrir hópinn. Útsetningar KIMA eru af ýmsum toga, bæði leika þau þjóðlög frá heimalöndum meðlima - Íslandi og Grikklandi, sem og eigin hljóðfæraútsetningar af sönglögum svo sem Jónasarlögum eftir Atla Heimi Sveinsson og Siete canciones populares españolas eftir Manuel de Falla. Hópurinn hlaut nýverið tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir tónleika ársins í flokknum sígild og samtímatónlist.Efnisskrá:Finnur Karlsson: Ferðalög (2021)*Marianna Filippi: Octopus (2021)*Þjóðlög í útsetningu KIMAKysstu mig hin mjúka mær (íslenskt þjóðlag)Grátandi kem jeg nú, guð minn, til þín (íslenskt þjóðlag)Sto pa kai sto ksanaleo (grískt þjóðlag)Anamesa treis þalasses (grískt þjóðlag)Siúil a rúin (írskt þjóðlag)Apano stin triandafilja (grískt þjóðlag)*frumflutningurMiðasala á tix:https://tix.is/is/event/12074/
Rappresentazione-di-anima-e-corpo/

Rappresentazione di Anima e Corpo

Breiðholtskirkja · 19. nóv / 20. nóv
Tónlistardeild Listaháskólans ræðst í flutning á tímamótaverki Emilios Cavalieris, Rappresentazione di Anima e Corpo. Verkið var frumflutt í Róm árið 1600 og prentað og gefið út það sama ár. Verkið telst vera fyrsta óratórían þar sem kór, einsöngvarar og hljómsveit sameinast í dramatísku tónleikhúsverki. Fyrsta óperan, Euridice eftir Jacopo Peri, leit dagsins ljós strax sama ár.  Cavalieri stjórnaði þeirri sýningu á vegum Medici fjölskyldunnar. L'Orfeo eftir Monteverdi var svo samin sjö árum seinna.Verkið lýsir innri baráttu mannsins við sjálfan sig, hið jarðneska líf andspænis hinu andlega, dyggðir, feistingar og almættið. Í verkinu leika Tíminn, Líkaminn, Sálin, Viskan, Heimurinn, Lostinn, Jarðneska lífið og Góðu ráðin helstu hlutverkin ásamt englum, blessuðum sálum og glötuðum sálum. Kórinn leikur stórt hlutverk og styður við söguna, dregur saman og skerpir jafn óðum á boðskapnum á milli þess sem persónurnar takast á.Kammerhljómsveit leikur í verkinu og munu þau Sólveig Thoroddsen hörpuleikari og Sergio Leopold Blanco teorbuleikari leiða meðleikinn, eða continuo hópinn, og leiðbeina öllum hópnum um stíl og flutningsaðferðir. Aðrir leiðbeinendur eru Hanna Dóra Sturludóttir, fagstjóri söngbrautar, Katrín Gunnarsdóttir, kóreógraf og fagstjóri dansbrautar og Sigurður Halldórsson sem stjórnar flutninginum. Alls verða flytjendur um 70 talsins.
wagner.jpg

Das süsse Lied verhallt

Salurinn · 29. okt
Kvöldstund tileinkuð tónlist eftir Richard WagnerTónleikar í Salnum í samstarfi við Richard Wagner félagið þar sem fluttar verða perlur úr óperum Wagners. Hrólfur Sæmundsson baritón, Margrét Hrafnsdóttir sópran og Egill Árni Pálsson tenór, ásamt Hrönn Þráinsdóttur píanóleikara eru flytjendur á tónleikunum en Árni Blandon leikari og bókmenntafræðingur mun leiða tónleikagesti inn í ástir og örlög sögupersónanna í veröld Wagners.Richard Wagner var stórhuga tónskáld og hugmyndir hans um samspil sjónleiks og tónlistar, eða Gesamtkunstwerk voru þaulhugsaðar. Það veldur því oft að óperur Wagners þykja flóknar í uppsetningu og flutningi og jafnvel óaðgengilegar fyrir almenning. Á þessum tónleikum freista flytjendur þess að skyggnast inn í heim Wagners með tónlistina í forgrunni, efnisskráin samanstendur af aríum og dúettum sem eru í dálæti hjá flytjendum, tónlistin er munúðarfull, leikandi og hreyfir við tilfinningum fólks.  Á efnisskrá tónleikanna er aría Wolfram úr Tannhäuser, O, du mein holder Abendstern, aría Rienzi úr Allmächtger Vater sem ber sama nafn og óperan og aría Isolde, Liebestod úr Tristan und Isolde.Á tónleikunum mun fléttast saman við tónlistina glefsur úr lífshlaupi Richard Wagner og Árni Blandon mun varpa ljósi á söguþráð hverrar aríu og dúetts fyrir sig. Listamennirnir sem leiða saman hesta sína á tónleikunum eru miklir Wagner unnendur og brenna fyrir því að færa hlustendum tónlist hans í tónleikaformi, við bestu mögulegu aðstæður eins og finna má í Salnum tónleikahúsi.
Florence Foster Jenkins

Prjónaóperubíó - Florence Foster Jenkins

Bíó Paradís · 27. okt
Bíó Paradís í samstarfi við Óperudaga ætla að halda prjónaóperubíó og sýna bíómyndina um sögu óperusöngkonunnar Florence Foster Jenkins frá árinu 2016. Sýningin verður haldin miðvikudaginn 27. október kl. 20:00. Ath. aðeins þessi eina sýning í boði. Meryl Streep fer með hlutverk Florence Foster Jenkins, Hugh Grant fer með hlutverk St. Clair Bayfield, sambýlismanns og umboðsmanns Jenkins og Simon Helberg fer með hlutverk píanóleikarans Cosme McMoon.Húsið opnar kl.19:00 fyrir þá sem vilja prjóna/hekla og kaupa veitingar til að njóta áður en myndin byrjar, einnig verður hægt að prjóna/hekla í salnum á meðan sýningunni stendur. Sagan um Florence Foster Jenkins er ansi merkileg. Hún þráði það heitt að verða óperusöngkona. Eftir lát föður hennar árið 1909 erfði Jenkins gríðarleg auðæfi og á sama tíma kynntist hún breska leikaranum St. Clair Bayfield sem varð síðar sambýlismaður hennar og umboðsmaður. Hann var að auki aðdáandi hennar númer eitt. Með hans hjálp og þeirra gríðarlegu auðæfa sem hún hafði erft við lát föður síns þá hélt hún tónleika í Carnegie Hall 25. október 1944 og það seldist upp á þá á aðeins tveimur tímum.Pétur Oddbergur Heimisson, verkefnastjóri Óperudaga og prjónamógúll, leiðir prjónið en honum fannst tilvalið að sameina óperu- og prjónaheiminn saman í tilefni af Óperudögum sem nú standa yfir. Hvað gæti hugsanlega verið betra en að horfa á óperumynd og prjóna um leið! Uppskrift að gleði, segir Pétur Oddbergur sem hvetur sem flesta til að mæta.#everyvoicedeservestobeheard Miðasala -> https://bioparadis.is/kvikmyndir/prjonaoperubio/
Ást í raun

Ást í raun

Fríkirkjan í Reykjavík · 30. okt
Hildigunnur Einarsdóttir mezzósópran og Tómas Guðni Eggertsson píanóleikari blása til ljóðasíðdegis í Fríkirkjunni í Reykjavík 30.október. Fluttir verða tveir þekktir ljóðaflokkar, Haugtussa eftir Edvard Grieg og Frauenliebe und -leben eftir Robert Schumann.Ljóðaflokkarnir tveir eiga það sameiginlegt að fjalla um ástir og sorgir ungra kvenna. Þeir eru þó ólíkir, samdir með 60 ára millibili, Haugtussa í Noregi 1890 og Frauenliebe und -leben í Þýskalandi 1830. Það er einnig áhugavert að skoða hvernig karlskáldin Chamisso og Garborg skrifa um ævi kvenna Grieg er sannur sínum þjóðskotna stíl. Píanóið leikur á alls oddi og norsk sveitastemmning leikur stórt hlutverk. Við fylgjumst með ungri sveitastúlku smala kúnum og láta sig dreyma. Tónlistin leiðir okkur á rómantískan hátt í gegnum ástarsögu þar til allt brestur í lokin og stúlkan situr við lækinn, harmi lostin, í sinni fyrstu ástarsorg og dreymir um að hann beri sig burt. Arne Garborg samdi ljóðabálkinn Haugtussa árið 1895 sem er öllu viðameiri, en Grieg valdi 8 ljóð úr flokkinum. Í ljóðabálki Adelbert von Chamisso, Frauenliebe und -leben er um að ræða lengri tímaspönn. Líkt og í Haugtussa er ung stúlka að uppgötva ástina og rómantískar tilfinningar, en við fylgjumst einnig með trúlofun, brúðkaupi og barnseignum. Í lokin situr harmi lostin kona og kveður ástina í lífi sínu. Schumann fer fögrum höndum um ljóð Chamisso og ekki furða að flokkurinn sé einn mest flutti ljóðaflokkur hans.Efnisskrá:Robert Schumann (1810-1856)Frauenliebe und -leben, op. 42(Adelbert von Chamisso)1. Seit ich ihn gesehen2. Er, der Herrlichste von allen3. Ich kann's nicht fassen, nicht glauben4. Du Ring an meinem Finger5. Helft mir, ihr Schwestern6. Süßer Freund, du blickest mich verwundert an7. An meinem Herzen, an meiner Brust8. Nun hast du mir den ersten Schmerz getanEdvard Grieg (1843-1907)Haugtussa, op. 67(Arne Garborg)1. Det syng2. Veslemøy3. Blaber ly4. Møte5. Elsk6. Killingdans7. Vond dag8. Ved Gjaetle-bekken
Glacier Requiem

Og hvað svo? Málþing um listina og lofts­lags­málin

Harpa · 5. nóv
Aðgangur er ókeypis og ekki þörf á skráningu Málþingið er unnið í samstarfi Óperudaga, Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur, Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss, Heimis Freys Hlöðverssonar og Sverris Norland. Það verður haldið í Hörpu þann 5. nóvember í tengslum við viðburðina Ljóð fyrir loftslagið,Are we ok? og ljósmyndasýninguna Glacier Requiem. Athyglinni verður beint að listafólki og loftslagsmálunum og hvaða máli framlag þeirra til málaflokksins, skiptir. Er listin mikilvæg í þessu samhengi, hvað gerist þegar búið er að flytja/sýna listaverkið? Hafði það eitthvað að segja? Skiptir það máli í stóra samhenginu? Og hvað svo?Þátttakendur í málþinginu eru: Kolbrún HalldórsdóttirÓlafur Páll JónssonUnnur BjörnsdóttirBenedikt ErlingssonHögni EgilssonSverrir Norland leiðir málþingið.Glacier RequiemLjósmyndasýningin Glacier Requiem  er einhverskonar vísindaleg og ljóðræn nálgun á loftslagsumræðuna . Árið 2019 náði Heimir Freyr sér í sýni úr fimm skriðjöklum í Vatnajökli. Hann fór með sýnin á vinnustofuna og myndaði þau á meðan þau bráðnuðu.  Með því að kíkja inn í ísinn og stækka upp með macro linsum opnast fallegur heimur. Loftbólurnar og askan í ísnum eru eins eins og æðarkerfi og líffæri. Þetta er eins og að horfa með smásjá inn í lífveru og hver Jökull er með sín séreinkenni.  Sýningin er er partur af jökla sálumessu sem að listamaðurinn hefur verið að vinna í síðan 2019.Are we OK?Vatnið okkar, þessi dýrmæta en í senn viðkvæma auðlind, viðheldur andrúmsloftinu, höfunum og norðurslóðunum eins og við þekkjum þær í dag. Endanlegt hvarf jökulsins Ok vakti athygli á heimsvísu og varð til þess að við fórum að gefa vatni, hvort sem er í fljótandi, föstu eða gufuformi meiri gaum. Einnig hvernig hlýnun jarðar hefur og mun hafa áhrif lífið á jörðinni og alla okkar tilveru.Í Are We OK? sem er m.a. innblásið af verkum Ólafs Elíassonar, Andra Snæs Magnason og Roni Horn, bjóða danshöfundurinn Daniel Roberts og tónskáldið María Huld Markan Sigfúsdóttir, áhorfendum í ævintýralegt ferðalag um einstakan arkítektúr Hörpu í splunkunýju verki sem skartar alþjóðlegum hópi dansara, tónlistarflytjenda og ljósameistara og gera þannig tilraun til að gera þessum stóru málefnum skil.Ljóð fyrir loftslagiðLjóð fyrir loftslagið var þema Óperudaga árið 2019 en það var innblásið af loftslagsaktívisma Gretu Thunberg og baltnesku söngbyltingunni árið 1989.Á hátíðinni var efnt til ljóðakeppni fyrir grunnskólanema á Íslandi með ofangreindu þema en um 400 börn sendu inn ljóð um náttúruna, loftslagið, framtíðarsýn sína og drauma. Hugmyndin á bak við ljóðakeppnina var að að fá innsýn inn í hugarheim barna og viðhorf þeirra til þessara málefna og skapa um leið nýjan vettvang fyrir þau til þess að tjá sig í tónum, ljóðum og myndlist. Þannig var markmiðið einnig að efla þátttöku barna í menningarlífinu. Nokkur ungu ljóðskáldanna hlutu verðlaun fyrir ljóðin sín á lokatónleikum hátíðarinnar í Kaldaljósi í Hörpu.Í kjölfarið voru nokkur ung norræn tónskáld fengin til að semja verk við sum ljóðin og önnur norræn barnaljóð. Nýju verkin verða frumflutt í Norðurljósum í Hörpu þann 6. nóvember og hljóðrituð. Um leið verður ný heimasíða opnuð þar sem ljóðin, tónverkin og teikningar barna munu birtast en hugmyndin með heimasíðunni er að börn geti áfram sent inn ljóð og lög til birtingar. Verkefnið hefur nú þegar breiða alþjóðlega vídd og unnið er að frekari þróun verkefnisins með tónlistarhátíðinni Nordic Song Festival í Svíþjóð.